Færsluflokkur: Bloggar

Vill Íslandshreyfingin strax í ESB?

Það er dálítið sérstakt fyrir nýgræðinga eins og mig í pólitíkinni að sjá hvernig fjölmiðlar meðhöndla ummæli manns í sjónvarpi. Því var slegið upp í tíufrettunum í gærkvöldi að Íslandshreyfingin vildi fara strax í ESB og það var haft eftir mér. Ég var sýndur segja að ég vildi aðildarviðræður á næsta kjörtímabili en sleppt var að sýna partinn þar sem ég listaði upp fyrirvarana fyrir aðildarviðræðum. En þetta var líklega gott skúbb að áliti fréttamannanna á RÚV.

Ég sagði í raunverulega ekkert meira um það hvort að við vildum inn í ESB heldur en Framsókn eða Sjálfstæðisflokkur. Þorgerður og Valgerður listuðu upp fyrirvarana og sögðu síðan að ef þeim yrði fullnægt þá væri aðildarumsókn inni í myndinni. Þórunn frá Samfylkingu gerði eins og þeim í Samfylkingunni er siður að slá í og úr og gefa ekki afdráttarlaust svar og ég veit ekki alveg hvar þessi þarna í Frjálslyndum var. Ég ákvað bara að snúa svarinu við og í stað þess að telja alla fyrirvarana upp fyrst og síðan að segja að við vildum aðildarviðræður ef þeir gengju upp þá ákvað ég að setja afstöðu okkar skýrt fram.

Við viljum skoða að fara í aðildarviðræður á næsta kjörtímabili sem þýðir auðvitað að við viljum fara í viðræður. En fyrst verður að taka til eftir núverandi ríkisstjórn og ná tökum á hagstjórninni, lækka vexti og ná niður verðbólgu. Við verðum líka að fara í aðildarviðræður með skýr markmið varðandi eignarhald á auðlindum okkar og vernd á íslenskum landbúnaði. Eins verðum við varðandi samningsmarkmiðin að hafa samráð við hagsmunaaðila í sjávarútvegi, iðnaði, viðskipta og atvinnulífi. Fyrr getum við ekki gengið til viðræðna. Og síðan ef viðræðurnar skila árangri fær þjóðin auðvitað að greiða atkvæði um aðild. 

Við verðum að gera okkur ljóst að fyrr eða síðar munum við standa frammi fyrir því að EES samningurinn verður okkur ónýtur. Þessvegna er óráð að sitja á rassinum og bíða eftir því að það gerist og þá að gera eitthvað. Það er betra að setjast að samningaborði meðan EES er í fullu gildi og við erum upprétt en eftir að hann er ónýtur og við þurfum að komna skríðandi að samningaborðinu.  


Ég trúi þessu ekki!!

Mér er orðavant yfir háttalagi vantrúarmanna en vona þó að þetta uppátæki þeirra beini athyglinni að því hversu helgidagalöggjöf kirkjunnar minnar er úr takti við samtímann. Það er ekki hægt í frjálsu samfélagi að ein kirkjudeild geti í krafti sambands síns við ríki bundið hendur skert frelsi þegnanna til athafna á ákveðnum dögum.  


mbl.is Vantrú heldur bingó á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við eigum að sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Á næsta kjörtímabili þarf Ísland að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Viðskiptahagsmunir okkar og hagsmunir okkar sem fullvalda ríkis krefjast þess. Það er ljóst að EES samningurinn mun úreldast hratt á næstu árum og á einhverjum tímapunkti kemur að því að hann gagnast ekki lengur okkar hagsmunum. Auðvitað þurfum við í samningaviðræðum að ná fram undanþágu eða löngum aðlögunartíma að sjávarútvegsstefnu ESB og tryggja þarf aðlögun íslensks landbúnaðar að innri markaði sambandsins. Aðalatriði málsins er samt að ekki er hægt að bíða eftir því að EES samningur renni sitt skeið.

Í dag hafa lýræðislega kjörnir fulltrúar okkar á Alþingi lítil sem engin áhrif á stóran hluta þeirra laga sem eru í gildi á Íslandi. Lög um umhverfi og matvælaeftirlit eru t.d. að öllu leyti úr ranni ESB. Til þess að hafa raunveruleg áhrif þurfum við að standa innan sambandsins og hafa áhrif í öllu ferli ákvarðanatökunnar. Það er líka ljóst að sveilfur í íslensku hagkerfi vegna sérstöðu íslensku krónunnar hafa verið afar óhagstæðar útrásarfyrirtækjum, nýsköpun og sjávarútvegi og því myndi þáttaka íslendinga í myntbandalagi ESB útrýma gengissveiflum gagnvart Evru, lækka vexti og opna nýja möguleika fyrir íslenskan fjármálamarkað.

Er ekki betra að fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið á meðan að uppgangur er í íslensku efnahagslífi og EES samningur er ennþá að virka en síðar þegar hann úreldist algjörlega? Er ekki betra að semja uppréttur með höfuðið átt en á hnjánum með hausinn milli lappanna?

Þetta viljum við skoða í Íslandshreyfingunni Lifandi land.

    


Íslandshreyfingin Lifandi land vill stöðva álvæðinguna!

Á Íslandi er aðeins eitt stjórnmálaafl sem vill stöðva álvæðinguna, Íslandshreyfingin Lifandi land. Vinstri- grænir hafa því miður dregið í land með andstöðu við álver á Húsavík og því er ljóst að þó að þeir setjist í stjórn í vor þá gæti álvæðing Íslands haldið áfram. Samfylkingin í Norðurlandi eystra kallar líka á álvæðingu nyrðra og gætu með skoðanabræðrum sínum í SV-kraganum stungið Fagra Íslandi undir stól og klárað álvæðinguna í Helguvík og Húsavík. Og kannski laumað inn stækkun í Straumsvík að þremur árum liðnum.

Er ekki komið nóg? 300,000 íslendingar þurfa ekki á stóriðju að halda til að halda stöðu sinni á meðal ríkustu þjóða heims. Við ættum frekar að skipa okkur í röð þeirra þjóða vilja snúa við þeirri óheillaþróun sem hefur átt sér stað í loftlagsmálum, mengun og sóun verðmæta sem hefur átt sér stað í heiminum. Við ættum frekar að gerast fyrirmynd í sjálfbærri þróun með því að gera betur í losun gróðurhúsalofttegunda en Kyoto bókunin segir til um, með því að hlúa að vistvænum veiðum, taka forystu í endurvinnslu og endurnýtingu og með því að gera stórátak í landgræðslu.

Við ættum að treysta einstaklingunum til að skapa atvinnutækifærin og almannavaldinu til að halda utan um velferð og menntun. Það á að fagna hinum gríðarlega krafti sem hefur fylgt vexti íslensks fjármálalífs og þekkingarfyrirtækja og greiða götu þeirra af fremsta megni. Það á að styðja vel við bakið á íslenskum ferðamannaiðnaði sem hefur átt undir högg að sækja frá ál og hvalamönnum. Og síðast en ekki síst eigum við að hlúa að öflugum sjávarútvegi og gera trillunum kleyft að sækja miðin á ný og auðvelda sjálfstæðum bændum og framleiðendum að brjótast undan oki miðstýrðrar landbúnaðarstefnu.


Er Egill Helga að fara í framboð fyrir frjálslynda?

Mér datt í hug að kannski væri Egill Helga í leið í framboð fyrir frjálslynda þegar hann lýsti skoðun sinni á Vallarhverfinu í Hafnarfirði í silfrinu á sunnudaginn og kallaði það "illa byggt slömm" (sem hann hafði náttúrulega eftir einhverjum snillingi). Slömm, fyrir þá sem ekki vita, þýðir fátækrahverfi á engilsaxnesku. Ég bíð spenntur eftir næsta þætti þar sem Egill heldur áfram að ryðja út úr sér gullkornum á borð við þetta.

Stóriðjustefna er hávaxtastefna

Mér sýnist að greiningardeild Landsbankans sé í takt við greiningu Glitnis um að áframhaldandi stóriðjustefna stjórnvalda sem Framsókn kallar Ekkert stopp eða eitthvað svoleiðis sé ekkert annað en ávísun á háa vexti í næstu framtíð með verðbólgu og háu gengi. 

Innspýtingarstefna í atvinnumálum er vond. Hún veldur óróa í efnahagslífi og eykur á miðstýringu ríkisins. Hvort sem það heitir refarækt, fiskeldi, skuttogarar í hvern fjörð eða álver þá er ríkisrekin atvinnustefna ekki það sem íslensk fyrirtæki þarfnast. 


mbl.is Landsbankinn spáir vaxtalækkun um mitt ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það hvíslaði að mér spörfugl

Ég ætla nú ekki að minnast á það við neinn og alls ekki að nefna það við fjölmiðla að lítill spörfugl hvíslaði því að mér þeir 5,000 erlendu farandverkamenn sem búa lögheimilislausir í iðnaðarhverfum Hafnarfjarðar hefðu allir flutt lögheimilið sitt til Jóhönnu Dalkvist hjá Hag Hafnarfjarðar þann 3 mars. Ég er alls ekki að ásaka neinn enda ekki að benda á neinn en það er víst lögleg skylda mín sem íbúa Hafnarfjarðar að skoða þetta. Ég nefndi þetta ekki á laugardaginn því ég var svo viss um stórsigur en get ekki annað en misst þessa staðreynd út úr mér úr því að þetta var svona tæpt. Og svo vil ég endurtaka að ég er ekki að ásaka neinn enda er þetta bara allt í skoðun. Sjá nánar á þessum stað
mbl.is Engin óeðlileg fjölgun á kjörskrá í Hafnarfirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sorglegt!

Það er sorglegt að Hagur Hafnarfjarðar ætlar að reyna að viðhalda því andlega borgarastríði sem þau komu af stað í aðdraganda kosninganna í Hafnarfirði ásamt ALCAN með því að ásaka Sól í Straumi um kosningasvindl.

Hræðsluáróður ALCAN og Hags Hafnarfjarðar manna um að álverið myndi loka ef stækkun fengist ekki hefur valdið hugarangri hjá mörgum starfsmönnum álversins og fyrirtækja sem þjóna álverinu. Þessi áróður hefur valdið sárindum á milli vina og ættingja og eins og sást á kosningunni í gær er bærinn klofinn í tvær fylkingar. Þessvegna er nauðsynlegt nú þegar niðurstaða kosninganna liggur fyrir að sætta fólk og lækna sárin. Og ábyrgðin á því liggur hjá þeim sem deildu harðast, Sól í Straumi, ALCAN og Hag Hafnarfjarðar.

Í ljósi þessa er sorglegt að Hagur Hafnarfjarðar skuli leggjast svo lágt að bera kosningasvindl upp á okkur sem stóðum að Sól í Straumi. Það er bara ljótt og ekki leið til sátta. 


mbl.is Hagur Hafnarfjarðar segir brögð í tafli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Söguleg stund í Hafnarfirði

Sigur venjulegra húsfreyja og húskarla yfir alþjóðafyrirtækinu ALCAN í Hafnarfirði í gær er sögulegur og markar vatnaskil í baráttu umhverfisverndarfólks við stóriðjustefnu stjórnvalda. Mér er mikill heiður að hafa lagt litla hönd á plóginn í þessari baráttu í Sól i Straumi, en þar stóð fremst alveg einstakur hópur karla og kvenna sem þrátt fyrir ólikar skoðanir í stjórnmálum gátu sameinast um það að berjast gegn stækkun álversins í Straumsvík. Þau hafa þrátt fyrir mikla ófrægingarherferð í sinn garð og mikið ofurefli staðið þétt saman og aldrei gefist upp.  

Frá því að barátta umhverfsiverndarsinna gegn stóriðjunni hófst á miðjum síðasta áratug hefur róðurinn verið þungur og sigrarnir fáir. En sigurinn í Hafnarfirði í gær mun bæta vindi í seglin hjá þeim stjórnmálaöflum sem setja baráttuna gegn stóriðjunni á oddinn. Íslandshreyfingin lifandi land og Vinstri græn standa þar fremst og þessi úrslit gefa þá von að í kosningunum í vor muni stóriðjustefnunni endanlega vera kastað fyrir borð þegar stórsigur þessara flokka verður í höfn. Og vonandi mun Samfylkingunni auðnast að gera Fagra Ísland að sínu leiðarljósi að lokum og taka þátt í sigri hins græna yfir hinu gráa. 

 


Álversstækkun þýðir vaxtahækkun segir Davíð

Davíð sagði áðan að það væri líklegt að stýrivextir hækki ef að álversstækkunin verður samþykkt.

Það er náttúrulega gleðiefni fyrir okkur skuldaranaFrown


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband