Færsluflokkur: Bloggar

ALCAN vill kaupa bæinn minn

Álbræðslan í Straumsvík hefur í 40 ár verið til friðs í bakagarðinum hjá okkur Hafnfirðingum og verið ágætis vinnustaður fyrir fjölda hafnfirðinga þótt að þeim hafi fækkað hin síðustu ár. Ég hef alveg umborið álverið eins og maður bara umber fjölda fyrirtækja í kringum sig. En því miður hefur þetta breyst og það er vegna þess að álbræðslan vill kaupa bæinn minn, Hafnarfjörð.

Þegar ALCAN lýsti yfir áhuga sínum fyrir nokkrum árum að stækka álverið (stuttu eftir að það hafði stækkað um 80,000 ton) þá var ég á móti því. Fyrst og fremst vegna þess að ég vildi ekki að stærsta álbræðsla Evrópu yrði einkennismerki Hafnarfjarðar. Einnig vildi ég gefa mínum afkomendum séns á því að hafa um að það að segja hvort að þeir vildu hafa álbræðslu í miðjum bænum eða ekki.

Ég skildi sjónarmið ALCAN vel. Þeir vildu bara hámarka sinn arð á meðan þeir fengju orkuna á tombóluprís. En eftirleikinn skil ég ekki.

Eftir að bæjaryfirvöld heyktust á því að taka ákvörðun um stækkun og ákváðu að setja málið í atkvæðagreiðslu þá ákvað ALCAN að fara í framboð eins og einhver milli í Ameríku og eyða tugmilljónum í kosningabaráttu. Og hver var andstæðingurinn. Lítill hópur venjulegra bæjarbúa sem vildi ekki meiri mengun og stærra álver.

Og úr því að vera ljóti feiti breimkötturinn sem svaf í bakgarðinum hefur ALCAN breyst í tröllvaxið skrímsli alþjóðafyrirtækis sem brosir framan í bæjarbúa, býður þeim Bo með Sinfó, disk og dagtal í öll hús, risaauglýsingar í bllöðum og ljósvakamiðlum og segir starfsmönnum sínum að þeir missi vinnuna ef að vonda fólkið í Sól í Straumi stöðvar stækkun.

Til að kóróna þetta hefur ALCAN ákveðið að kaupa bæinn. Þeir ætla að leggja 250,000 krónur í hverja 4 manna fjölskyldu í bænum og nú síðast ætla þeir að borga fyrir að setja ljótu háspennulínurnar sínar í jörðu.  Samfylkingin í Hafnarfirði virðist vera sátt við þessi kaup og Sjálfstæðismenn líklegast líka. Og fyrir ALCAN menn virðast kaupin gengin í gegn því að þeir flagga á öllum götuhornum í bænum.

Það er síðan spurning á laugardaginn hvort að Hafnfirðingar vilji selja sig fyrir slikk.  


Þegar íbúakosning verður skrumskæling lýðræðis

Forystumenn Samfylkingarinnar í Hafnarfirði stæra sig mikið yfir íbúakosningunum um stækkun álversins í Straumsvík sem fara fram eftir nokkra daga og kalla það stórt skref í lýðræðisátt. Þeir sjálfir þegja þunnu hljóði um afstöðu sína þótt að afstaða forystumannanna Lúðvíks og Gunnars sé nokkuð ljós. Gunnar stærði sig mikið í Silfri Egils um helgina og talaði fjálglega um íbúalýðræði. En það verður nú að segjast ef þetta verður fordæmi fyrir íbúalýðræði á Íslandi þá er bleik brugðið.

ALCAN er erlent stórfyrirtækli sem veltir tæplega eitt þúsund og fimm hundruð milljörðum á ári. Þetta fyrirtæki hefur notað ómælda fjármuni í að auglýsa grimmt í fjölmiðlum með heilsíðuauglýsingum og óperusöng, verið með risatónleika, gefið bæjarbúum geisladiska og dagatöl og hrætt starfsmenn í að njósna um íbúa Hafnarfjarðar og setja í gagnagrunn og svert mannorð þess fólks sem stendur að Sól í Straumi. Fyrirtækið hefur þar að auki leikið aðalhlutverk í kynningarfundum Hafnarfjarðarbæjar þar sem íbúar áttu að fá óhlutdrægar upplýsingar. Er þetta lýðræði?

Gegn þessu hefur staðið lítill hópur bæjarbúa sem kalla sig Sól í Straumi. Þau hafa reynt að andæfa stækkun álversins með fundum og útgáfu bæklinga. Mikið af orku þeirra hefur farið í að leiðrétta þær rangfærslur sem ALCAN og aðrir stækkunarsinnar hafa haft uppi.  Þessi hópur fékk með eftirgangsmunum 450,000 krónur í styrk frá bæjarfélaginu og því var meira að segja mótmælt af sjálfstæðismönnum. Er þetta lýðræði?

Nei, auðvitað er ekki lýðræðislegt að hagsmunaðili eins og ALCAN fái að valsa um eins og hann eigi Hafnarfjörð og eyði peningum út og suður til að ná takmarki sínu. Ef það er lýðræði þá erum við kominn aftur á slóðir Stalíns og annarra einræðisherra. Það eina sem hægt er að segja um þessa íbúakosningu í Hafnarfirði er að hún er skrumskæling þess sem ætti að vera.


Íslandshreyfingin lifandi land með fljúgandi start

Frábært að sjá 5 % fylgi við hreyfinguna aðeins 3 dögum eftir tilkynningu framboðs og við erum enn ekki búin að kynna öll okkar stefnumál eða framboðslista. Sá að enn eru 35% óákveðinn, þannig að sóknarfærin eru veruleg.

Ég sá í Mogganum í gær að Geir Haarde tekur vel í djúpborunarhugmyndir okkar. Það er skondið að þessi eldgamli flokkur þurfi að sækja hugmyndir í splunkunýja hreyfingu eins og okkar en sagt er nýjir vendir sópi betur en gamlir. 

 

Það var farið á AKranes og Borganes í gær í roki og rigningu. Það var vel tekið á móti okkar fólki og stemmningin var góð og mikið hlegið. Það er skemmtilegt að vera í hreyfingu sem ætlar sér að slá nýjan takt í íslenskri pólitík bæði hvað varðar stefnu og áferð. Það er allavega ljóst að það verður stuð hjá okkur alveg fram á kjördag.  


Þorgerður biðlar til vinstri

Það er frábært að Þorgerður Katrín skuli hafa svo gott trúnaðarsamband við þjóðina að hún viti hvernig stjórnarmynstur hún vill. Og svo er hún farinn að daðra við vinstrið. Er hún bara alveg búinn að gleyma F .....æ þú veist. Og hvað með þessa með múslímaeitthvaðið. Eru þeir bara alveg úti.

En Þorgerður ætlar að ná til kvenna og fólks á landsbyggðinni. Já það er hægt að fara annaðhvort Suðurlands eða Vesturlandsveg og betra að skilja stóriðjustefnuna eftir heima.

Hún vill kannski fá far með rútunni okkar sem fer Akranes og Borgarnes á morgun. Þar verður sko fjör 

Íslandshreyfingin um landið allt. Opinn spjall- og skemmtifundur í
Skrúðgarðinum Akranesi kl.12:15 á morgun , laugardag. Súpa  og
spjall. Margrét, Ómar, Jakob, Ósk. MOJO.
Fjölmennum , söfnum og fögnum liði. Allir velkomnir !
Íslandshreyfingin – lifandi land.

Opinn spjall – og skemmtifundur  Íslandhreyfingarinnar
Landnámssetrinu Borgarnesi 15:15 á morgun , laugardag.  Margrét,
Ómar, Jakob, Ósk. Kaffi og kleinur. Spjall og söngur.
Allir velkomnir!
Íslandshreyfingin – lifandi land.
 


mbl.is Þorgerður: Þátttaka okkar forsenda umburðarlyndrar miðjustjórnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framtíðin býr í Íslandshreyfingunni Lifandi Landi

Það var afar ánægjulegt að vera á blaðamannafundi í gær þar sem tilkynnt var um framboð Íslandshreyfingarinnar Lifandi Lands undir forystu Ómars Ragnarssonar og Margrétar Sverrisdóttur. Stemmningin var rífandi góð og þau Ómar, Margrét, Ósk og Jakob voru flott þegar þau kynntu helstu stefnumálin.

Það er ekkert launungarmál að framboðið samanstóð af tveimur hópum. Annarsvegar fólki sem fylgdi Margréti Sverrisdóttur út úr Frjálslynda flokknum og hinsvegar umhverfisverndarfólki sem margt hefur starfað innan Framtíðarlandsins. En það sem er ánægjulegast er að með þessum hópum tókst strax góð samstaða og í dag er einn sterkur og samhentur hópur sem stendur að framboðinu.  

Í gær og í dag hafa kverúlantarnir og fulltrúar hinna flokkanna ryðst út á völl og fundið framboðinu allt til foráttu. Hið venjubundni leðjuslagur er hafin og nú eigum við sem stöndum að framboðinu að henda okkur út í og hefja sama leikinn. Nei, takk við höfum ekki áhuga á þessum leik gömlu flokkanna. Þeir mega velta sér í leðjunni en við ætlum að kynna stefnumálin og láta kjósendur dæma okkur af þeim en ekki hvað við erum flink að bauna á hina flokkanna.

Íslandshreyfingin Lifandi Land er stjórnmálaafl sem vill breytingar í íslensku samfélagi, sem vill sjá hugmyndina  um sjálfbæra þróun vera framkvæmda í verki á öllum sviðum samfélagsins, sem vill þroska og nýta sköpunarkraft einstaklinganna til framþróunar og framfara og sem vill horfa til framtíðar þar sem börn okkar og barnabörn geta notið íslenskrar náttúru í landi þar umhverfi, velferð landsmanna og efnahagsmál vega jafnt.

 


Samfylkingin í Hafnarfirði leggst á árarnar með ALCAN

Meirihluti bæjarstjórnar í Hafnarfirði hefur nú kastað hlutleysisgrímunni og ákveðið að einhenda sér í að efla kosningamaskínu ALCAN í Hafnarfirði. Enn sem fyrr þykjast þeir vera algerlega hlutlausir í málinu og tala fjálglega um hina lýðræðislegu atkvæðagreiðslu.

Skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands var birt í gær og í ljós kom að ávinningur bæjarins af stækkun álversins í Straumsvík er í mesta lagi 6-8 þúsund krónur per íbúa á ári. Og í útreikninganna eru ekki tekin sá kostnaður sem verður vegna aukinnar mengunnar og hugsanlegrar verðrýrnunar á íbúðarbyggð í nágrenninu. Þetta þýddi  t.d. að 1 % lægra fasteignaverð á svæðinu vegna stækkaðs álvers þýddi 250 þúsund krónur tap fyrir þann sem á 25 milljón króna íbúð.

En í stað þess að kynna þessar tölur sem bærinn sjálfur pantaði þá ákveður bæjarstjórnarmeirihlutinn að sleppa því að ræða þetta heldur senda þeir fjármálastjóra bæjarins í pontu til að segja að ávinningur bæjarins sé yfir 500 milljónir á ári og að það sé svo mikið land sem bærinn hefur undir atvinnulóðir að þeir reikni ekki með að þær klárist næsta áratuginn. Svo til þess að kóróna þetta setja þeir afar villandi tölur í fyrirsögn um skýrslu Hagfræðistofnunar á vef Hafnarfjarðarbæjar sem segir að tekjuauki bæjarins sé 3,5 til 5,0 milljarðar en segja ekki að það sé á fimmtíu árum. Þetta er náttúrulega aðeins gert til að kasta ryki í augu almennings og láta upphæðirnar um ávinning sýnast stærri en þær eru. 

Er þetta hin málefnalega og upplýsta umræða sem bæjarstjórinn Lúðvík Geirsson kallaði eftir fyrir nokkru? 


Mér finnst framtíðin góð ef......

Flestir skrifa undir sáttmála Framtíðarlandins og gerast grænir...reikna þó ekki með Frikka Sóp.

Flestir segja nei við stækkun álversins í Straumsvík.....reikna þó ekki með Rannveigu Rist.

Flestir kjósa flokk sem stendur með náttúru Íslands.....reikna þó ekki með Geir Haarde.

Flestir kjósa flokk sem fagnar nýjum íslendingum......reikna þó ekki með Jóni Magnússyni

Flestir kjósa flokk sem stendur við prinsipp.......reikna þó ekki með Siv Friðleifsdóttur

Flestir kjósa flokk sem njósnar ekki um þá á netinu......reikna þó ekki með Ögmundi Jónassyni

Flestir kjósa flokk sem veit hvað hann vill.....reikna þó ekki Guðmundi Steingrím

Allir verða vinir í skóginum....ég reikna þó ekki með Mikka ref...eða kannski 


ALCAN fer í felur

Það vakti athygli mína þegar ALCAN dreifði áróðursbæklingi sínum inn um lúguna hjá mér fyrir helgina að álverið heitir núna aftur ÍSAL. Frá því að álverið var byggt í Hafnarfirði 67 þá var það annaðhvort kallað ÍSAL eða álbræðslan en síðan ALCAN keypti verksmiðjuna á síðasta áratug hefur markvisst verið unnið að því að allir gleymi ÍSAL enda stendur það fyrir Íslenska Álfélagið . Þannig var ekki orð um ÍSAL á vefjum ALCAN hvorki hér heima eða erlendis þar til nú fyrir nokkrum dögum að allt í einu heitir fyrirtækið ISAL Reykjavik í stað ALCAN Iceland. AÐ vísu láðist að breyta nokkrum PDF skjölum þannig að þar heitir fyrirtækið ennþá ALCAN Iceland.

En hvernig stendur á þessu? Þarna er nátturulega verið að beita aðferðum auglýsingafræðanna. Líklegast er að rýnihópur, sem er hópur karla og kvenna sem pæla í ímynd ALCAN, hafi komist að þeirri niðurstöðu að nafnið ALCAN hefði ekki nógu jákvæða ímynd með tengingu við fjölþjóðlega starfsemi og því væri betra að nota þjóðlegt heiti sem hefði líka jákvæða mynd í hugum Hafnfirðinga. Og hvað var betra en gamla nafnið ÍSAL.

Það vakti líka athyglina hve konur voru áberandi í áróðursbæklingnum. Rýnihópurinn hefur líklegast komist að því að konur væru líklegri til kjósa gegn stækkun og því um að gera að vinna þær á band ALCAN. Enda lítur bæklingurinn út eins og Mannlífsblað með þykkum og vönduðum pappír og glæsilegum ljósmyndum.

  


Góð ráð fyrir kjósendur

Eftir að grái/græni ásinn fór loks að skipta máli fyrir kjósendur eftir stóriðjusukk undanfarinna ára er eiginlega orðið vonlaust að vita hvað maður á að kjósa. Eftirfarandi ráð hjálpa kannski einhverjum.

1. Ef þú ert stóriðjusinnaður, með kvótakerfi, finnst Geir Haarde vera the man og finnst Árni Johnsen OK þá kýstu Sjálfstæðisflokk.

2. Ef þú ert stóriðjusinnaður, á móti kvótakerfi, og finnst útlendingar svona og svona þá kýstu Frjálslynda.

3. Ef þú ert með náttúrunni, áfram Ísland og finnst Árni Johnsen brandari þá kýstu framboð Ómars og Margrétar.

4. Ef þú ert stóriðjusinnaður, með kvótakerfi, doldið svona dúmm og vilt vera litli bróðir í stjórn þá kýstu Framsókn.

5. Ef þú ert með eða móti stóriðju, eiginlega á móti kvótakerfi og vilt líklega ganga í Evrópusambandið þá kýstu Samfylkingu.

6. Ef þú ert á móti þeim sem eru með stóriðju, á móti þeim sem eru með Sjálfstæðisflokknum og á móti þeim sem situr á móti þér þá kýstu Vinstri Græna.

7. Og svo ef ert bæði blindur og elliær þá kýstu framboð aldraðra og öryrkja.

8 Og að lokum ef þú veist ekki þitt rjúkandi ráð þá geturðu alltaf kosið Noreg í Eurovision (þá kjósa þeir okkur). 


Hræðsluáróður á Iðnþingi

Helgi Magnússon nýkjörinn fromaður Samtaka Iðnaðarins slæst í hóp þeirra sem vilja loka álverinu í Starumsvík ef það fær ekki að stækka. Þótt að ALCAN sjálft segi að engin áform séu um að loka hamra öfl eins og Samtök Iðnaðarins og Hagur Hafnarfjarðar á þessum hræðsluáróðri.

Það er náttúrulega hrikalegt að samtök vinnuveitenda skuli á þennan hátt sá fræi ótta og öryggisleysis meðal þeirra hundraða sem starfa í Straumsvík. Og þetta er ekki nóg heldur hótar Helgi því að næst komi röðin að fiskvinnslufyrirtækjum, síldarverksmiðjum og öðrum iðnaði. Og svo til að klykkja út þá spáir Helgi því að atvinnuleysisvofan sé á næsta leyti. Eru þetta hin bjartsýnu skilaboð sem Helgi vill senda til íslensks iðnaðar?

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband