Myglaða Ísland

Það líður varla sá dagur að það komi ekki frétt um að það hafi fundist mygla í einhverri stofnun, vinnustað eða skóla á landinu. Myglufaraldur hefur geisað síðasta áratug með gríðarlegum  heilsuvandamálum og miklu tjóni á mannvirkjum. Nú á síðustu árum hafa stjórnmálamenn gert sér æ betur grein fyrir þessum vanda og loksins liggur nú fyrir Alþingi þingsályktunartillaga um aðgerðir gegn rakaskemmdum í fasteignum sem er gott mál.

En vandinn er stórtækari því miður. Íslenskt stjórnkerfi hefur verið  myglað í marga áratugi og árhundruði.

Spilling og einkavinavæðing  grasseraði  í skjóli embættismanna Dana og kirkjunnar þjóna á nýlendutímum og hélt áfram á síðustu öld  í hagsmunapoti stjórnmálaflokkana og framsali fiskveiðiauðlindarinnar til örfárra kvótagreifa. Þetta hefur lítið breyst á þessari öld og við sáum mygluna dafna vel í einkavinavæðingu fjármálakerfisins á fyrsta áratug áldarinnar.

Myglan vex einnig hratt í innviðum landsins,í dómstólum Sjálfstæðisflokksins,vegakerfi,heilbrigðiskerfi og í velferðar- og menntakerfi.

Þrátt fyrir tugmilljarða fjárfestingar í vegakerfi landsins þá er ljóst að bílferð á Vestfirði er hættuspil og ökuferð í vinnuna á höfuðborgarsvæðinu er farin að taka lungann úr vinnudeginum.

Biðlistar í heilbrigðiskerfinu verða æ lengri með hverju árinu og heilbrigðisstarfsfólk flýr til útlanda, þrátt fyrir að ennþá er verið að byggja flottasta spítala norðan Alpafjalla fyrir tugmilljarða í mýrinni við flugvöllinn.

Og velferðarkerfið gengur út á að tryggja að aldraðir og öryrkjar lifi við sultarmörk þrátt fyrir fögur orð stjórnmálamanna um hverjar kosningar. Og myglan í Útlendingastofnun veldur því að fjölskyldur með börn eru rekin út á gaddinn aftur og aftur.

En það er ekki mygla í húsakynnum þessara stofnana sem veldur þessu. Það er mygluð stofnanamennnig, myglaðir embættismenn og myglaðar reglugerðir og lög sem valda því að íslensk stjórnsýsla er mygluð inn að beini.

Það verður að uppræta hana. Fyrirbyggja þarf með öllum ráðum spillingu og frændhygli með opnum og gagnsæjum ferlum við ráðningar embættismanna, opnu og auðlesnu bókhaldi stofnana ríkisins og skýrum siðareglum. Brjóta þarf upp stofnanamenningu sem byggir á frændhygli,leyndarhyggju, þjónustufælni og úreltu valdakerfi með því að opna verkferla og upplýsingagjöf, vera með skýra þjónustustefnu, setja á flatt stjórnskipulag og hreinsa út vanhæfa starfsmenn.

Starfsmenn Tryggingastofnunar, Vinnumálastofnunar og Sjúkratrygginga Íslands eiga að einbeita sér að því að sinna þjónustu við aldraða, öryrkja og sjúka ,leiðbeina þeim og hjálpa og gæta þess að þeir fái fyrsta flokks þjónustu. Fjárhagslegt öryggi  þessa hópa á tvímælalaust að vera  grunnframfærsla án nokkura skilyrða sem er byggð á raunverulegri framfærsluþörf. Ríkisskattstjóri ætti síðan að sjá um greiðslur á grunnframfærslu.

Starfsmenn Útlendingastofnunar (sem ætti að heita Innflytjendastofa) eiga að aðstoða sína skjólstæðinga við að aðlagast sínum nýju heimahögum, finna þeim húsnæði og atvinnu og gæta þess að þeir viti vel um sinn rétt og stöðu en ekki að eyða sínum tíma í að finna leiðir til að reka barnafjölskyldur úr landi.

Heilbrigðisstofnanir mættu taka upp sama verklag og Covid deild Landspítalans gerði í faraldrinum, að fylgjast vel með þeim sem veikjast, kanna líðan og kalla fólk inn í spítalaþjónustu þegar nauðsynlegt er. Og biðlistar ættu að vera fortíðarvandamál í heilbrigðiskerfi sem er vel fjármagnað og rekið á hagkvæman og skilvirkan hátt.

Það á að brjóta á upp valdakerfi ráðuneytanna og hafa það skýrt að æðstu stjórnendur ráðuneyta og aðstoðarmenn ráðherra eru pólitískir starfsmenn sem eiga að taka pokann sinn við valdaskipti. Og svo er algerlega nauðsynlegt að skerpa á þrískiptingu ríkisvaldsins. Dómarar eiga að vera ráðnir af valnefndum óháðum Alþingi og framkvæmdavaldini og þingmenn eiga ekki að sitja sem ráðherrar. Og að sjálfsögðu verður að taka upp nýju stjórnarskránna byggða á tillögum stjórnlaganefndar sem var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2012.

Aðeins þannig er einhver möguleiki að uppræta mygluvandamálið á Íslandi.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband