Færsluflokkur: Bloggar
16.3.2007 | 16:27
Maður bara á ekki orð!!!
Það getur vel verið að samkeppnislög hafi verið svo loðin að Hæstiréttur vildi leyfa olíugreifunum að njóta vafans en vilji þjóðar og þings er ótvíræður. Þarna voru menn búnir að játa sekt sína og um það var ekki deilt. En engin á að bera ábyrgðina. Hversskonar skilaboð eru þetta frá Hæstarétti?
Ákæru á hendur forstjóra olíufélaga vísað frá | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.3.2007 | 13:30
Ljóta fólkið á þing
Það læðist sá grunur að mér þegar ég lít yfir framboðslista stjórnmálaflokkanna að það sé bara fallegt fólk á leiðinni á þing. Að vísu er hann Gauji þarna hjá Frjálslyndum doldið digur en ímyndarfræðingum flokksins hefur nú tekist að gera krúttlegan eins og ein góð kona í Kópavoginum kallaði ein ljótan þar. Ég sá að vísu glitta í nokkra ófríða en þeir voru neðarlega á lista. Og þótt að nýtt framboð Ómars og Margrétar bætist við þá er nú ekki hægt að segja að þau séu ófríð. Þetta er skelfilegt ástand fyrir okkur ljóta fólkið.
Sjónvarpinu virðist í nöp við okkur og í Egilssilfrinu t.a.m. er bara fallegt fólk þótt að Egill sjálfur hafi verið í okkar flokki fyrir nokkrum árum áður en hann lét breyta sér eitt af fallega fólkinu. Og fólkið í fréttunum er ekki bara fallegt, það er íðilfagurt. Og þegar það tekur viðtal við okkur ljóta fólkið þá er andlitið á okkur sýnt í örskotssvipan og síðan er klippt yfir á andlit fréttamannsins eða sýndar myndir af fuglum eða svoleiðis.
Við ljóta fólkið höfum lagt fram okkar skerf til lands og þjóðar í gegnum tíðina og vorum meira segja í mikilum meirihluta í móðuharðindunum þegar eiginlega allir íslendingar voru ljótir. Við eigum því skílausan rétt á því að komast á þing og við höfum margt fram að færa. Allavega höfum við meiri tíma til að pæla í málum heldur en fallega fólkið sem er alltaf að punta og snurfusa sig.
Ég skora því á stjórnmálaflokkana að gera gangskör í því að koma ljóta fólkinu í örugg sæti. Við erum líka fólk þótt að við séum frekar ólagleg.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.3.2007 | 08:37
Hagur Hafnarfjarðar fer með rangt mál
Þetta er grein sem átti að birtast í Víkurfréttum í dag en var hafnað vegna þess að þeir sögðust hafa of margar greinar í blaðinu. Afsannar þetta ekki kenningu þeirra Hagsmanna um að andstæðingar stækkunar séu eftirlæti fjölmiðlanna. Nema ALCAN sé búið að kaupa Víkurfréttir En hérna er greinin.
Í síðustu Víkurfréttum birtist viðtal við Inga B. Rútsson formann Hags Hafnarfjarðar. Í upphafi viðtalsins segir hann að markmið félagsins sé að koma fram með hlutlausar upplýsingar svo að fólk geti byggt skoðun sína á rökréttum grunni. Því miður fylgir Ingi ekki þessu markmiði því síðar í viðtalinu rekur hver rökleysan aðra. Vonandi er þetta ekki lýsandi fyrir málflutning Hagsmanna næstu vikurnar. Það er afar mikilvægt á næstu vikum að bæði andstæðingar og fylgjendur stækkunar álversins beri fram rök fyrir fullyrðingum sínum þannig að val bæjarbúa þann 31. mars verði ekki byggt á sleggjudómum heldur staðreyndum.
Ingi talar um rangar upplýsingar frá andstæðingum stækkunar um flúorlosun eftir stækkun og segir að aukning um 150 % sé röng. Hvað gerir aukning úr 98 tonnum árið 2004 (heimild - grænt bókhald ALCAN 2004) í 246 tonn eftir stækkun (heimild - úrskurður Skipulagsstofnunar um umhverfismat). Eitt hundrað og fimmtíu prósent aukning á flúorlosun. Hvar eru upplýsingar um 25% aukninguna sem Ingi talar um?
Ingi talar líka um að andstæðingar álvers vilji rýmka fyrir byggð en að það gerist aldrei því að svæðið í kringum álverið sé skilgreint sem iðnaðarsvæði. Það getur vel verið að Ingi sé spámaður og geti séð 20-30 ár fram í tímann en ég held að flestir hefðu hlegið fyrir 30 árum ef einhver hefði talað um íbúðabyggð á norður hafnarbakkanum. Þegar álverið hættir starfsemi sinni eftir 20-30 ár getur vel verið að barnabörnin mín og hans Inga hafi allt aðrar hugmyndir nýtingu svæðisins en þeir sem málum stjórna í dag.
Það sem er samt alvarlegast í máli Inga B. Rútssonar er sú makalausa staðhæfing að Hagur Hafnarfjarðar og Sól í Straumi séu sammála um álverið fari verði ekki af stækkun. Þetta er alger firra. Sól í Straumi hefur aldrei haldið þessu fram og ALCAN menn hafa meira segja afneitað þessu á heimasíðu sinni. Þeir einu sem halda þessu blákalt fram í dag eru Hagur Hafnarfjarðar og aðrir stækkunarsinnar. Það er alvarlegt mál þegar samtök sem þykjast vera málsvari starfsmanna og annarra sem byggja afkomu sína á álverinu eru vísvitandi að vekja ugg í brjósti þessa fólks um lífsafkomu sína. Þetta er ekkert annað en hræðsluáróður til þess eins að gerður að tryggja það að stærsta álver í Evrópu verði staðsett í Hafnarfirði næstu 60 - 80 árin. Er það sú framtíð sem við viljum fyrir barnabörnin okkar?
Þessi grein er líka á vef Sólar í Straumi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.3.2007 | 08:35
Eru stjórnmál eins og að halda með liði í fótbolta?
Manni dettur nú oft í hug þegar maður fylgist með stjórnmálaumræðunni að skoðanir stjórnmálamanna séu ekkert endilega þeirra eigin. Á þessu eru nú samt undantekningar. En alltof oft hefur maður upplifað það þegar einhver stjórnmálamaður hefur komið fram með ágætis hugmynd sem er sannarlega þess virði að ræða hana að aðrir stjórnmálamenn hafna henni formálalaust og oft virðist það bara vera af þvi að hinn er úr hinu liðinu. Hversu oft hafa góðar hugmyndir koðnað niður á Alþingi bara af því að stjórnarandstöðuþingmaður lagði hana fram.
Mig grunar að ekkert alltof margir þingmenn leggi upp úr stjórnarskrárákvæðinu um að þingmenn eigi að fylgja sannfæringu sinni. Þein þykir líklegast affarasælla að spila með liðinu sínu og vera nú ekkert að rugga bátnum. Enda sjáið hvað gerist með þessa sem spila ekki með. Þeir enda yfirleitt í öðru liði.
Bara svona að pæla.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.3.2007 | 08:13
Glæsileg opnun hjá Sól í Straumi
Það var glæsileg opnun á kynningarmiðstöð Sólar í Straumi í Hótel Víking í gær. Alveg pakkað inn úr dyrum kl:4 þegar Heiða spilaði nokkur lög fyrir gesti. Pétur og Valgerður fóru svo yfir aðgerðaáætlun næstu vikna og góðar kveðjur komu frá Sólunum á Suðurlandi og Suðurnesjum.
Það var margt góðra gesta á staðnum. Þótt að Vinstri grænir væru áberandi á staðnum með þingmenn og bæjarfulltrúa fremsta í flokki var þarna fólk úr öllum flokkum. Það vakti þó athygli mína að Þórunn Sveinbjarnardóttir var eini frambjóðandi Samfylkingarinnar í kraganum sem ég sá og ekki bólaði á frambjóðendum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Eins voru bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingar fjarri góðu gamni enda annahvort fallin í faðminn hjá ALCAN eða tvístígandi á hlaðinu.
Það var lika gaman að sjá marga gamla vini og skólafélaga fjölmenna á svæðið. Það var gott að finna þennan mikla stuðning sem Sól í Straumi nýtur og vonandi nýtist hann til að atkvæðagreiðslan þann 31. mars felli stækkunina í Straumsvík.
Upplýsingamiðstöðin verður opin frá 13-18 alla daga fram að kosningum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
10.3.2007 | 18:16
Stórmyndin Breiðavík og Byrgið
Þjóðlegt og subbulegt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.3.2007 | 15:00
Hallar nokkuð á?
Það vakti athygli mína þegar ég fletti blöðunum í morgun að ALCAN er komið á fullt í kosningabaráttunni. Heilsíðuauglýsingar með brosandi fólki og skínandi hreinum byggingum blöstu við allstaðar og greinar eftir starfsmenn álversins á næstum annarri hverri síðu. Litla auglýsingin frá Sól í Straumi mátti sín lítils í bæjarblaðinu.
Lúðvík bæjarstjóri í Hafnarfirði virtist furða sig á fundi í gærkveldi á því að samtök almennings væru að biðja um peninga til að vinna á móti auglýsingamaskínu ALCAN og sagði að upplýsingar frá bænum væru svo greinargóðar að almenningur gæti myndað sína skoðun út frá þeim. Já einmitt, þær eru svo greinargóðar að þegar maður hefur síað út upplýsingarnar sem skipta máli þá verður kominn 31. mars , árið 2008.
Hann sagði líka að bæjaryfirvöld litu þannig á að stuðningur við skoðanaskipti væru í sama farvegi og við sveitastjórnarkosningar þar sem flokkarnir fengju allir sama stuðning án tillits til stærðar. Einmitt það já. Þannig að ALCAN er þá náttúrulega búinn að fá 500,000 kallinn sinn eins og Sól í Straumi og geta því borgað auglýsinguna í Fréttablaðinu í morgun.
Mig langar að spyrja Lúðvík. Hefði þér fundist það eðlilegt í síðustu sveitarstjórnarkosningum að Samfylkingin í Hafnarfirði hefði fengið ótakmarkað fjármagn frá skrifstofunni í Reykjavík, fyllt blöðin af auglýsingum, boðið bæjarbúum hitt og þetta frítt, verið með fjölda starfsmanna á launum við að skrifa áróðursgreinar og hringja í alla bæjarbúa og opnað glæsilegustu kosningaskrifstofu landsins? Miðað við afstöðu þína í gær ertu í raun að kalla á það að lýðræðisleg umræða á Íslandi geti verið kaffærð af fyrirtæki á borð við ALCAN sem hagnaðist um 1200 milljarða á síðasta ári.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.3.2007 | 12:37
Vinstrið á ekki umhverfismálin
Mér finnst nú ekki trúverðug staðhæfing Ólafs Stephensen um að VG sé búið að svara eftirspurn eftir framboði umhverfisverndarsinna. Þótt að maður sé umhverfissinni þá er maður ekki sjálfkrafa vinstrimaður. Það eru margir sem eru á hægri væng stjórnmálanna eða á miðjunni sem hafa áhuga á framboði umhverfisverndarafla vegna stóriðjustefnu Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar og Samfylkingar. Þessvegna á fyrirhugað framboð umhverfissinna á hægri vængnum fullan rétt á sér og fær örugglega stuðning frá mörgum þeirra sem geta ekki hugsað sér að kjósa vinstrið en blöskrar sovésk framganga stjórnvalda i virkjunar og stóriðjumálum.
Vísbendingar um að VG svari eftirspurn eftir framboði umhverfisverndarsinna" | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.3.2007 | 14:14
Hafnarfjarðarbrandari vikunnar
Ég fékk inn til mín í gær upplýsingarit Hafnarfjarðarbæjar um stækkun álversins í Straumsvík. Þvíllíkur brandari. Var ekki hægt að vinna þetta öðruvísi en að slengja öllum greinargerðum og skýrslum embættismanna og verkfræðinga um "deiliskipulagstillöguna" í eitt blað og ætlast til að venjulegt fólk geti áttað sig á kjarna málsins. Þetta er algerlega ólesanlegt nema fyrir verkfræðinga, embættismenn, útfærða pólitíkusa og þá sem hafa eytt vikum/mánuðum í að kynna sér málið. Hvernig í ósköpunum á að vera hægt að átta sig á aðalatriðum um stækkun álversins eftir að hafa reynt að krafsa sig í gegnum þetta torf. Aðalatriðin eru þessi:
1. Hvað stækkar álverið eftir stækkun frá því sem nú er í hekturum?
2. Hvað eykst mengun frá álverinu mikið eftir stækkun?
3. Hver eru neikvæð og jákvæð efnahagsleg áhrif stækkunar?
4. Hver eru félagsleg og byggðarleg áhrif stækkunarinnar í Hafnarfirði?
5. Hver eru áhrif stækkunarinnar utan Hafnarfjarðar?
Þetta eru aðalatriðin og ég fann aðeins upplýsingar um fyrstu tvö atriðin með herkjum og eitthvað pínulítið um það þriðja. Hvernig á að vera hægt að móta sér upplýsta afstöðu með þessum skýrslubunka?
Það virðist erfitt fyrir Samfylkingaforystuna í Hafnarfirði að geta tekið afstöðu í þessu stækkunarmáli og hafa þeir þó líklegast lesið allar þessar skýrslur í bak og fyrir og eru flestir sjóaðir pólitíkusar. Þessvegna er það bara hafnarfjarðarbrandari og það lélegur að ætlast til að bæjarbúar geti myndað sér skoðun út frá viðrini sem barst inn um lúguna hjá okkur í gær.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.3.2007 | 00:38
Er ALCAN í framboði?
Það er ótrúlegt að hvorki bæjaryfirvöld í Hafnarfirði eða aðrir stjórnmálamenn hafa fett fingur út í fjáraustur ALCAN í kosningabaráttu sem ber keim af baráttu stjórnmálaflokks. Afhverju heyrist ekkert í pólitíkusunum sem sökuðu Baugsmenn um að misnota sér fjárhagslega stöðu sína til að fegra ásýnd sína í augum almennings?
Mér finnst mikill munur á því að fyrirtæki eyði fjármunum í að auglýsa sig og sína vöru eða að það eyði fjármunum í að hafa áhrif á hvað almenningur kýs um. Í fyrra tilfellinu er það á hreinu fyrir almenning að fyrirtækið er að auglýsa annaðhvort vöru eða ímynd. Gott dæmi um þetta eru auglýsingar bankanna. Í seinna tilfellinu er fyrirtækið að nota fjármuni sína til að hafa áhrif á kjósendur þannig að þeir velji rétt þannig að fyrirtækið hagnist á því.
Það hefur tíðkast á Íslandi að hagsmunasamtök ýmisskonar og stjórnmálaflokkar reyni að hafa áhrif á kjósendur en það er alveg ný stefna að fyrirtækin sjálf reki þann áróður. Yfirleitt hafa þau notað sín samtök eins og Samtök Atvinnulífsins og það er líka rétti vettvangurinn. Megum við búast við því þegar fjallað verður í framtíðinni um mál sem snerta einstök fyrirtæki að þá verði sett í gang heljarinnnar auglýsingaherferð til að hafa áhrif á kjósendur eða fulltrúa þeirra. Er svo kannski næsta skref til að tryggja að umhverfi sé hagstætt einstökum fyrirtækjum að þau kannski sponsi flokka eða stjórnmálamenn til að tryggja hagstæða útkomu?
Barátta ALCAN fyrir stækkun álversins í Starumsvík hefur ekki farið fram hjá neinum. Ókeypis tónleikar, geisladiskur í hvert hús, glæsileg kynningarmiðstöð í miðbænum og símtal til hvers einasta bæjarbúa kostar sitt en er líklegast ekki mikið fyrir fyritæki sem hagnast um milljarða á ári hverju. Það hallar mikið á. Sól í Straumi sem hefur staðið í baráttunni gegn stækkuninni hefur ekkert svona fjármagn á bak við sig og verða því að treysta á frjáls framlög almennings og fyrirtækja.
Það er lýðræðinu óhollt að einhver geti í skjóli auðmagns eða valds valtað yfir málstað andstæðinga sinna. Þannig vinnubrögð eru bara ástunduð í einræðisríkjum eða bananalýðveldum. Veitum Sól í Straumi stuðning og leggjum þeim lið.
Sól í Straumi með fjáröflun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)