Færsluflokkur: Bloggar
6.3.2007 | 22:06
Þar sem gleðin ræður ríkjum
Ef það væri ekki fyrir menn eins og vin minn Júlíus Júlíusson á Dalvík þá væri maður líklegast meira og minna pirraður alla daga. Eins og t.d. í kvöld þegar ég var að pirra mig á einhverjum fjáranum þá opnaði ég bloggið hans og þar var að finna óð hans til gleðinnar og ekkert síðri en sjálfur gleðióður Beethovens. Maður las í gegn og gat ekki annað en glaðst.
Júlli er lifandi sönnun þess að hugvit, þolgæði og kraftur er það eina sem þessi þjóð þarfnast. Á nokkrum árum hefur honum tekist að gera Fiskidaginn mikla (sem mörgum fannst nú alger fíflaskapur í fyrstu) að stærsta einstaka viðburði sem haldin er utan höfuðborgarsvæðisins og um leið fest Dalvík rækilega á kortið. Eins og margir vita þá er Júlli ekki við eina fjölina felldur. Fyrir utan að stjórna Fiskideginum mikla er hann leikskáld, leikari, veislustjóri, uppistandari, fótboltafrík, og síðast en ekki síst góður vinur. Júlli rúlar
Bloggar | Breytt 7.3.2007 kl. 13:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.3.2007 | 12:27
Hættið að uppnefna mig!
Rökræðan í kringum umhverfismál á Íslandi er einkennileg. Eða ætti ég kannski að segja dæmigerð.
Ég, eins og líklegast margir, aðrir hef ekkert pælt mikið í umhverfismálum í gegnum tíðina. Ég er Hafnfirðingur og ólst upp við álbræðsluna í Straumsvík, fannst sem smákrakka rauðu og hvítu súrálsturnarnir flottir enda minntu þeir á bismark brjóstsykur, man að mamma bannaði manni að tína ber á holtinu útaf flúornum og þekkti stráka sem unnu þar á sumrin. Þegar ég vann í Sædýrasafninu man ég eftir bláa skýinu sem umlukti verksmiðjuna. En þetta truflaði mann ekkert þá, enda reykti ég þá eins og strompur og fannst sjálfsagt að menga umhverfið hjá vinum og ættingjum.
En nú á síðustu 10 árum hef ég orðið umhverfisvænni. Ég hætti að reykja, fór að fylgjast með umræðu um umhverfismál og fór að reyna mynda mér skoðun á hinum ýmsu aðgerðum sem hafa áhrif á umhverfi okkar. Ég var nú í fyrstu skeptískur á Kárahnjúkavirkjun vegna þess að mér fannst fáránlegt að grípa til sovéskra efnahagsaðgerða til að bjarga vonlausri byggðastefnu fyrir horn og fannst týpískt að menn töluðu um mikla arðsemi en sýndu aldrei neina útreikninga. En þegar ég heimsótti Kárahnjúkasvæðið árið 2001, sem hafði verið lýst sem eyðimörk og sá hvaða náttúruperlum við vorum að fórna þá varð ég eiginlega gáttaður. Var ríkisstjórn hægrimanna virkilega að ganga í sömu sporin og alræðisstjórn Bréfsnefs í Sovétinu sáluga gerði í mið-Asíu og fremja óafturkræf náttúruspjöll til þess eins að auka við þungaiðnaðinn í landinu.
En það sem ég uppgötvaði að þegar ég opnaði munninn og fór að mótmæla þessum áformum var eiginlega skelfilegt. Sá hópur sem hafði hagsmuni af virkjuninni og álverinu í Reyðarfirði úthrópaði mig sem kaffihúsablaðrara, andstæðing landsbyggðarinnar og eiginlega hálfgerðan hryðjuverkamann. Ég var sakaður um vera vinstri grænn (þeir hafa víst einkaleyfi á umhverfismálum), útsendari Sea Shepgerd eða þaðan af verra, vera á móti uppbyggingu í landinu og á móti útlendingum (af því að margir þeirra vinna á Kárahnjúkum). Svo er vinsælasta röksemdin sú að ég sé nú bara tuðari og á móti öllu.
Svipað gerðist nú fyrir skömmu þegar ég lýsti mig andvígan stækkun álversins í Straumsvík. Stækkunarsinnar hafa sakað mig um vilja lokun álversins, um að vera á móti starfsmönnum og að vera á móti þróun og uppbyggingu Hafnarfjarðar. Eins hef ég verið sakaður um að efast um dómgreind samborgara minna og að ég vinni að því að rústa atvinnulíf í bænum mínum. Svo hefur maður enn og aftur verið sakaður um a hanga á kaffihúsum.
Það eina sem ég hef sagt um málið er að ég vilji ekki stærstu álverksmiðju í Evrópu inn á gafl hjá mér. Það er staðreynd að hún mengar meira en núverandi verksmiðja og það eitt er nóg fyrir mig. Ég hef reynt að forðast sleggjudóma eða alhæfingar um þá sem vilja stækkun því að sá hópur er með stækkun á mismunandi forsendum. Sumir vilja meiri hagnað og veltu á meðan að aðrir eru uggandi um atvinnuna sína. En engan þeirra vil ég kalla kaffistofublaðrara, framsóknarsjálfstæðismann (sem halda að þeir eigi einkaleyfi á stóriðjustefnunni), útsendara ALCAN, á móti uppbyggingu nútímaatvinnulífs, eða á móti útlendingum (af því að þeir koma til Íslands að mótmæla virkjunum).
Það er öllum fyrir bestu að umræðan um þessi mál hér á Íslandi fari úr skotgröfunum og fólk geti sagt sína skoðun á umhverfi sínu án þess að vera úthrópað. Það er staðreynd að mismunandi skoðanir á umhverfismálum er að finna hjá öllum flokkum og þvert á skoðanir í efnahags og utanríkismálum. Vinstri grænir hafa ekki einkarétt á umhverfismálunum og Sjálfstæðis/Framsóknarflokkurinn ekki á stóriðjumálunum. Stjórnmálamenn eiga að hafa skoðun á umhverfismálum eins og öðrum málum en ekki að fela sig á bak við þögn eins og Samfylkingin í Hafnarfirði. Þá vonandi hættir umræðan um umhverfismál að vera einkennileg og menn geta rökrætt opinskátt um hlutina.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.3.2007 | 11:40
Er þetta ekki framtíðin?
--
The very largest computing complexes, such as data centers, now use more
power than some large factories. For example, the five largest search
companies now use about 2 million servers, which consume about 2.4
gigawatts, according to Ask.com vice president of operations Dayne Sampson.
By comparison, the US's massive Hoover Dam generates a maximum of about 2
gigawatts
This is a major reason why companies like Ask.com, Google, Microsoft, and
Yahoo! are building facilities in the Pacific Northwest, where they can tap
into relatively inexpensive hydroelectric power generated by dams
constructed on the area's many rivers. Computing-related power usage
currently represents about 15 percent of US electrical consumption,
Er ekki skynsamlegra að nýta orkuna okkar til að knýja Google heldur en ALCAN eða RUSAL? Engin mengun, þörf á starfsfólki með hátt menntunarstig, há laun og óendanlegar möguleikar fyrir afleidda starfsemi. Það eina sem þarf til viðbótar er aukin bandbreidd til landsins en það virðist en vefjast fyrir ráðamönnum þjóðarinnar að góð tenging Internetsins er forsenda fyrir hagsæld nútímahagkerfis og uppbyggingu á landsbyggðinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.2.2007 | 17:45
Hver keypti Kjarvalinn?
Tuttugu og fimm milljónir fyrir þriðja flokks verk eftir Kjarval eru örugglega tíðindi vikunnar. Þeir sem luma á fyrsta og annars flokks verkum eftir meistarann geta farið að hlakka til næsta uppboðs og Listasafn Reykjavíkur getur kannski hresst upp á fjárhaginn með því að selja nokkur af þriðja og fjórða flokks verkunum sínum eftir meistarann.
En hver keypti? Það var líklegast ekki neinn af stóru bönkunum því að þeir eiga fullt af verkum eftir Kjarval og sum þeirra meira segja í fyrsta flokki. Ekki Bakkabræður því að þeir virðast nú ekki hafa mikinn áhuga á menningu og listum. Ekki Baugsliðið eða allavega finnst manni ólíklegt að þeir séu að pæla í Kjarval í miðjum réttarhöldum.
Það er eiginlega bara einn sem kemur til greina. Það muna örugglega allir eftir manninum sem flutti inn þriðja flokks útbrunnin poppara til að skemmta í afmælinu sínu og borgaði fyrir það 70 milljónir. Hann er sá eini sem finnst sjálfsagt að kaupa þriðja flokks verk eftir Kjarval með milligöngu þriðja flokks gallerís. Veit þó fyrir víst að veggurinn sem Kjarval á eftir að hanga er fyrsta flokks.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.2.2007 | 14:32
Frábært framtak hjá litla bankanum
Það var alveg frábært að heyra um stórhug Sparisjóðs Svarfdæla sem ætla að byggja menningarhús fyrir sveitarfélagið. Þetta er vonandi hvatning fyrir aðra banka og önnur stórfyrirtæki landsins um að gera nú myndarlega við menningu og líknarstarf í landinu. Ég vildi að Sparisjóðurinn í mínum bæ (Hafnarfirði) væri svona höfðinglegur og styrkti menningarlíf í bænum á viðlíka hátt. En kannski er hægt að keppast um þetta eins og flottu veislurnar um daginn.
Kb banka munar ekkert um að borga t.d. Tónlistarhöllina, Landsbankinn gæti svo byggt Ólýmpíuleikvang fyrir fótboltalandsliðiði, Glitnir nútímalistasafn fyrir NÝLÓ, ALCAN gæti sett á stofn Ál-skemmtigarð á þynningarsvæðinu við Straumsvík með vatnsrennibrautum og rússibönum og Björgvin myndi skemmta öll kvöld í Álgarðinum, Bakkabræður myndu náttúrulega opna risa þemagarð sem byggði á þjóðsögum Jóns Árna og Baugur ætti að byggja keðju skemmtibátahafna hringinn í kringum landið og bjóða upp siglingar í glæsibátum.
Framlög íslenskra fyrirtækja til menningar og líknarstarfsemi hefur margfaldast í síðustu árum. Þetta framtak litla bankans á Dalvík verður vonandi til þess að þessi stuðningur eigi eftir að vaxa.
Sparisjóður Svarfdæla kostar byggingu menningarhúss á Dalvík | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.2.2007 | 10:43
Strútar í samfylkingu
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.2.2007 | 12:19
List, hundaskítur og glötuð Spaugstofa
Ég fór á sýningu Pierre Huyghe í Listasafni Reykjavíkur á föstudaginn og varð fyrir töluverðum vonbrigðum. Huyghe er einn af áhugaverðustu listamönnum frakka um þessar mundir og maður bjóst við einhverju verulega flottu. Í staðinn var boðið upp á 3 vídeó sýningar og gat ekki séð betur en að tvær þeirra væru documentasjónir frá gjörningunum í Tate og París. Þriðja vídeóið var svo sem ágætlega interessant en þetta hefði held ég allt sómt sér betur í Tjarnarbíó. Mér hefði fundist metnarfyllra ef Hyughe hefði gert einn af þessum gjörningum eða sem væri enn betra að gera nýjan fyrir rýmið þarna í Hafnarhúsinu. Ég vona að það sé ekki nein þjóðremba en sýning Birtu Guðjóns sem er í D salnum þarna í Hafnarhúsinu er skemmtileg og sýnir að Birta er ekki bara góður sýningarstjóri (Gallerí Dvergur/Safn) heldur flottur listamaður.
Á laugardaginn eyddi ég síðan drjúgum hluta dagsins við að tína upp hundaskít í garðinum mínum. Þetta er ágætis hugleiðingarathöfn og leiddi hugann að hver væri munurinn á hundaskít og mengun úr ALCAN. Það getur verið að hvorutveggja sé tiltölulega meinlaust og skaði mann ekkert til langframa en það er þó frekar ógeðslegt að leggja það sér til munns. Munurinn er þó sá að að maður ræður hvort maður étur hundaskít en mengunin kemur inn um kjaftinn hvort sem manni líkar betur eða verr. Það bjargaði þó laugardeginum að með hjálp konunnar fann ég skó sem pössuðu og borðaði síðan fínt pasta á Fridays.´
Einu sinni var ég mikill aðdáandi Spaugstofunnar og fannst þeir óborganlegir í því að draga dár að ýmsu í þjóðfélaginu sem orkaði tvímælis. Ógleymanlegir eru nokkrir þættir þar sem þeir gerðu úttekt á t.a.m. trúmálum íslendinga og þjóðarsál. EN nú er nóg komið. Þeir Spaugstofumenn eru vægast sagt orðnir alveg hrikalega leiðinlegir, hugmyndaleysið algert og nú er reynt endalaust að fylla upp í tímann með ömurlegum kúk og piss bröndurum. Það er svo sem dæmigert fyrir dagskrárdeild sjónvarpsins að halda úti sama skemmtiþættinum í 20 ár enda er innlend dagskrárgerð sjónvarpsins með því versta sem gerist (og er þá norska sjónvarpið talið með). Eftir að hafa um skeið fylgst með dagskrárefni á BBC þá er himinn og haf þarna á milli í bæði gæðum og skemmanagildi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.2.2007 | 11:15
Hvar var Lúlli bæjarstjóri?
Ég fór á fínan fund hjá umhverfissinnuðu Samfylkingarfólki í Hafnarfirði í gær um stækkunina í Straumsvík. Fundurinn var í Bæjarbíó sem vakti upp minningar um skemmtilega tíma með Leikfélaginu þar í 15 ár. Rak augun í Tryggva Harðar sem vakti aftur á móti upp miður skemmtilegar minningar um hvernig meirihluti Alþýðuflokksins árið 1998 bolaði félaginu úr húsinu með svikum og pólitískum loddarabrögðum. En nóg um það. Þetta var fínn fundur og bara nokkuð vel mætt.
Jón Baldvin var fyrsti ræðumaður og hélt þetta líka þessa frábæru ræðu sem reif í tætlur stóriðjustefnu stjórnvalda og hvatti ráðamenn Samfylkingarinnar í Hafnarfirði til að taka alvarlega markmiðið um hið Fagra Ísland. Vona að ræðan birtist í öllum fjölmiðlum landsins.
Svo talaði Tryggvi Harðarson sem lýsti sig fylgjandi stækkun en bara eftir 5 ár. Hans röksemdir snerust aðallega um gróðann sem myndi hljótast af stækkun og hann gerði lítið úr mengunaraukningu og nefndi að miklu meiri mengun væri við stóru gatnamótin í Reykjavík. Svona röksemdafærsla finnst mér út í hött. Get ekki séð að eitthvað geti verið í lagi ef það er verra einhversstaðar annarsstaðar. Svona eins og að pyntingar í Guantanamo séu í lagi vegna þess að Al Kaida noti verri aðferðir.
Þórunn Sveinbjörnsdóttir talaði síðan á sömu nótum og Jón Baldvin. Þórunn er einn af fáum þingmönnum Samfylkingarinnar sem var á móti Kárahnjúkavirkjun á sínum tíma. Hún hefur einnig unnið afar gott starf í kjördæminu og hefur yfirburða þekkingu í alþjóðamálum (sem ég þekki af eigin reynslu). Þessvegna kom á óvart að hún náði ekki fyrsta sæti í kraganum eins og hún stefndi að.
Ég held að þessi fundur hafi sýnt vel þá kreppu sem Samfylkingin er í varðandi umhverfismál og hefur endurspeglast í skoðanakönnunum. Það er ekki nóg að setja fram flotta stefnu í umhverfismálum (Fagra Ísland) og að formaður flokksins sé skorinorður í fjölmiðlum þegar sveitastjórnarmenn flokksins spila sóló á vellinum og draga þar með úr trúverðugleika flokksins. Á fundinum í gær steig á stokk Samfylkingarfólk sem hefur sterkar skoðanir bæði með og á móti stækkun í Straumsvík. Það er gott en á móti vekur furðu að á fundinn skyldu ekki koma forystusauðir Samfylkingarinnar í Hafnarfirði. Hvar voru Lúlli, Gunni, Ellý og fleirri?
Það er jákvætt að bjóða almenningi upp á atkvæðagreiðslur um mál sem skipta þá máli eins og stækkunina í Straumsvík. En að taka þá afstöðu eins og meirihluti bæjarstjórnar í Hafnarfirði gerir að vera hlutlaus í málinu út á við er fáránlegur. Eru stjórnmálamenn ekki kosnir vegna þeirra skoðana sem þeir bjóða kjósendum upp á? Það hefur líka sýnt sig að hlutleysið ristir grunnt því að bæjarstjórinn hefur bæði í orðum og athöfnum ýjað að stuðningi sínum við stækkun. Er ekki betra að henda burt hlutleysisgrímunni og segja sína skoðun. HVað segja hinir Samfylkingarmennirnir í bæjarstjórn? Elta þau bæjarstjórann eða er það leyndarmál hvaða skoðun þau hafa?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.7.2006 | 17:45
Er hægra grænt framboð í andarslitrum?
Það voru vonbrigði að sjá að Reynir Harðarson, einn af öflugustu Framtíðarlandsforkólfunum og einn af þeim sem vildi sjá Framtíðarlandið bjóða fram, ganga til liðs við Samfylkinguna. Hann virðist eins og margir taka viðsnúning Samfylkingarinnar í umhverfismálum trúanlegan og að hið Fagra Ísland þeirra verði í fararbroddi í kosningunum. Það getur verið að græn slikja sé nú komin yfir Samfylkinguna í Reykjavík en þar ætlar Reynir að setjast á lista en í öðrum kjördæmum sitja enn í brúnni harðir stóriðjukallar eins og Einar á Austurlandi og Möllerinn fyrir norðan. Hér í kraganum var einum af fáum þingmönnum Samfylkingarinnar sem barðist gegn Kárahnjúkum, Þórunni Sveinbjarnardóttur bolað úr fyrsta sætinu af Gunnari Svavarssyni ú Hafnarfirði.
Það er ljóst að Samfylkingin í Hafnarfirði, sem er eitt sterkasta vígi hennar á landinu, hefur tekið afstöðu með stækkun álversins í Straumsvík og stað þess að segja það hreint út þá hlífir hún sér á bak við atkvæðagreiðslu 31 mars. Það er þó augljóst að oddvitar hennar í Firðinum hafa tekið afstöðu með því að taka undir sjónarmið ALCAN í mengunarmálum, með því að saka Sól í Straumi um lygar og rangfærslur og með því að fordæma ekki grímulausan áróður ALCAN manna með tónleikum og gjöfum til bæjarbúa. Eins er reynt að þvæla málið fyrir bæjarbúum með því að láta þá greiða atkvæði um deiliskipulag þann 31. mars í stað þess að hafa spurninguna klára um hvort að fólk vilji stækkun eða ekki.
Sjálfstæðisflokkurinn í Hafnarfirði hefur einnig brugðist algerlega í þessu efni og eltir stefnu stóra bróður í Valhöll í stað þess að marka sér eigin stefnu sem miðast við framtíð bæjarfélagsins. Maður hefði haldið að hægri menn sæju þann fáránleika að binda stærðar landsvæði á besta stað í bænum undir álverkssmiðju í stað þess að nýta sér þá möguleika sem bjóðast Hafnarfirði vegna nálægðar við alþjóðaflugvöll og einstæða náttúru Reykjaness. Það er kannski ekki skrítið að fylgi flokksins sé í sögulegu lágmarki í bænum þegar hann er bara að druslast áfram með Samfylkingunni.
Þótt að Reynir hafi fundið sér farveg með Samfylkingunni, eins skrítið og það hljómar, þá vona ég að Ómar, Margrét Sverris og fleirri finni flöt á að stofna til framboðs sem setur umhverfimál í öndvegi og geti í áherslum sínum höfðað til fólks sem hingað til hefur kosið til hægri.
Lalli Vill
Bloggar | Breytt 21.2.2007 kl. 13:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)