Myglaða Ísland

Það líður varla sá dagur að það komi ekki frétt um að það hafi fundist mygla í einhverri stofnun, vinnustað eða skóla á landinu. Myglufaraldur hefur geisað síðasta áratug með gríðarlegum  heilsuvandamálum og miklu tjóni á mannvirkjum. Nú á síðustu árum hafa stjórnmálamenn gert sér æ betur grein fyrir þessum vanda og loksins liggur nú fyrir Alþingi þingsályktunartillaga um aðgerðir gegn rakaskemmdum í fasteignum sem er gott mál.

En vandinn er stórtækari því miður. Íslenskt stjórnkerfi hefur verið  myglað í marga áratugi og árhundruði.

Spilling og einkavinavæðing  grasseraði  í skjóli embættismanna Dana og kirkjunnar þjóna á nýlendutímum og hélt áfram á síðustu öld  í hagsmunapoti stjórnmálaflokkana og framsali fiskveiðiauðlindarinnar til örfárra kvótagreifa. Þetta hefur lítið breyst á þessari öld og við sáum mygluna dafna vel í einkavinavæðingu fjármálakerfisins á fyrsta áratug áldarinnar.

Myglan vex einnig hratt í innviðum landsins,í dómstólum Sjálfstæðisflokksins,vegakerfi,heilbrigðiskerfi og í velferðar- og menntakerfi.

Þrátt fyrir tugmilljarða fjárfestingar í vegakerfi landsins þá er ljóst að bílferð á Vestfirði er hættuspil og ökuferð í vinnuna á höfuðborgarsvæðinu er farin að taka lungann úr vinnudeginum.

Biðlistar í heilbrigðiskerfinu verða æ lengri með hverju árinu og heilbrigðisstarfsfólk flýr til útlanda, þrátt fyrir að ennþá er verið að byggja flottasta spítala norðan Alpafjalla fyrir tugmilljarða í mýrinni við flugvöllinn.

Og velferðarkerfið gengur út á að tryggja að aldraðir og öryrkjar lifi við sultarmörk þrátt fyrir fögur orð stjórnmálamanna um hverjar kosningar. Og myglan í Útlendingastofnun veldur því að fjölskyldur með börn eru rekin út á gaddinn aftur og aftur.

En það er ekki mygla í húsakynnum þessara stofnana sem veldur þessu. Það er mygluð stofnanamennnig, myglaðir embættismenn og myglaðar reglugerðir og lög sem valda því að íslensk stjórnsýsla er mygluð inn að beini.

Það verður að uppræta hana. Fyrirbyggja þarf með öllum ráðum spillingu og frændhygli með opnum og gagnsæjum ferlum við ráðningar embættismanna, opnu og auðlesnu bókhaldi stofnana ríkisins og skýrum siðareglum. Brjóta þarf upp stofnanamenningu sem byggir á frændhygli,leyndarhyggju, þjónustufælni og úreltu valdakerfi með því að opna verkferla og upplýsingagjöf, vera með skýra þjónustustefnu, setja á flatt stjórnskipulag og hreinsa út vanhæfa starfsmenn.

Starfsmenn Tryggingastofnunar, Vinnumálastofnunar og Sjúkratrygginga Íslands eiga að einbeita sér að því að sinna þjónustu við aldraða, öryrkja og sjúka ,leiðbeina þeim og hjálpa og gæta þess að þeir fái fyrsta flokks þjónustu. Fjárhagslegt öryggi  þessa hópa á tvímælalaust að vera  grunnframfærsla án nokkura skilyrða sem er byggð á raunverulegri framfærsluþörf. Ríkisskattstjóri ætti síðan að sjá um greiðslur á grunnframfærslu.

Starfsmenn Útlendingastofnunar (sem ætti að heita Innflytjendastofa) eiga að aðstoða sína skjólstæðinga við að aðlagast sínum nýju heimahögum, finna þeim húsnæði og atvinnu og gæta þess að þeir viti vel um sinn rétt og stöðu en ekki að eyða sínum tíma í að finna leiðir til að reka barnafjölskyldur úr landi.

Heilbrigðisstofnanir mættu taka upp sama verklag og Covid deild Landspítalans gerði í faraldrinum, að fylgjast vel með þeim sem veikjast, kanna líðan og kalla fólk inn í spítalaþjónustu þegar nauðsynlegt er. Og biðlistar ættu að vera fortíðarvandamál í heilbrigðiskerfi sem er vel fjármagnað og rekið á hagkvæman og skilvirkan hátt.

Það á að brjóta á upp valdakerfi ráðuneytanna og hafa það skýrt að æðstu stjórnendur ráðuneyta og aðstoðarmenn ráðherra eru pólitískir starfsmenn sem eiga að taka pokann sinn við valdaskipti. Og svo er algerlega nauðsynlegt að skerpa á þrískiptingu ríkisvaldsins. Dómarar eiga að vera ráðnir af valnefndum óháðum Alþingi og framkvæmdavaldini og þingmenn eiga ekki að sitja sem ráðherrar. Og að sjálfsögðu verður að taka upp nýju stjórnarskránna byggða á tillögum stjórnlaganefndar sem var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2012.

Aðeins þannig er einhver möguleiki að uppræta mygluvandamálið á Íslandi.


Grænt hagkerfi er framtíðin

Las um daginn mjög gott viðtal við Sigurð Gísla Pálmason athafnamann og framleiðanda Draumalandsins í Fréttablaðinu. Þar kemur hann fram með athyglisverðar hugmyndir um orsök efnhagshrunsins og kallar á nýja hugmyndafræði í uppbyggingu efnahagslífsins sem byggir á traustum siðferðislegum grunni.

Það er mikilvægt að eftir gjaldþrot gamla hagkerfisins í haust verði byggt upp nýtt hagkerfi á næstu misserum sem tryggi öllum atvinnu og verði ávísun á langtíma hagvöxt sem byggir ekki á sóun og ævintýramennsku. Setja þarf fram atvinnustefnu til framtíðar sem byggir á sjálfbærri nýtingu auðlinda, mannafla og fjármagns.

Innleiðing græns hagkerfis er besta leiðin til þess. Innan græns hagkerfis þrífst best menntun og frumkvöðlakraftur nýrrar kynslóðar. Leiðarljós græns hagkerfis er sjálfbær þróun sem þýðir að hagkerfið er byggt upp á þeirri meginreglu að nýting auðlinda, mannafla og fjármagns skili þeim í sama ástandi eða betra til næstu kynslóðar og svo koll af kolli. Þetta þýðir t.a.m. að nýting auðlinda verður að vera í sátt við náttúru landsins og komandi kynslóðir. Eins verður uppbygging atvinnu og mannlífs að tryggja öllum mannsæmandi afkomu og fjölbreyttum valkostum til menntunar og starfa. Nýting fjármagns til fjárfestinga má heldur ekki leiða til skulda sem næstu kynslóðir þurfa að borga.

Græna hagkerfið er engin klisja eða draumsýn fárra sérvitringa. Það er eina raunhæfa lausnin til að endureisa laskað efnahagslíf heimsins að mati margra helstu iðnríkja heims. Barack Obama, forseti Bandaríkjanna lagði fram í febrúar græna efnahagsáætlun sem á að skapa 5 milljón ný störf á næstu árum og ríkistjórnir landanna í ESB , Kina og Japan undirbúa svipaðar áætlanir. Það vekur furðu að einu stjórnmálaflokkarnir á Íslandi sem ætla að fylgja alþjóðasamfélaginu í þessa átt eru Samfylkingin og Vinstri Grænir meðan að Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Frjálslyndir horfa enn til sovéskrar stóriðjustefnu sem sinnar endurreisnar í efnahagslífinu.

Með innleiðingu græns hagkerfis gæti Ísland verið í fararbroddi þeirra þjóða sem ætla að endurreisa hagkerfi sín á þeim grunni og jafnvel orðið skólabókardæmi og fyrirmynd um grænt hagkerfi. Við endurreisn íslenska efnhagslífsins er nauðsynlegt að horfa fram á veginn og grípa ekki til skyndilausna sem koma í bakið á okkur síðar eins og að nýta sjálfbærar orkulindir okkar í mengandi stóriðju. Endurreisn efnahags og atvinnulífs á Íslandi til framtíðar felst í nýju hagkerfi sem er sjálfbært og skapar ný störf þar sem menntun og sköpunarkraftur þjóðarinnar nýtur sín. Græna hagkerfið er framtíðin.     


Á maðurinn jörðina ?

Ég fór á myndina "The day the earth stood still" um daginn. Þetta er endurgerð myndar sem var gerð á fimmta áratugnum og fjallar um heimsókn geimvera til jarðarinnar og viðbrögð jarðarbúa (bandaríkjamanna) við þeirri heimsókn. Upphaflegu myndina sá ég fyrir tuttugu og fimm árum og minnir að hún hafi haft einkar sterka skírskotun í þá ógn sem stafaði af kjarnorkuvopnakapphlaupi Bandaríkjanna og Sovétríkjanna. Myndin var gerð í upphafi kalda stríðsins þegar stórveldin fóru að kjarnorkuvígbúast að krafti og hatur og ótti í garð óvinarins handan hafsins var magnaður upp af stjórnvöldum. Tvö ríki jarðarinnar ásamt vinaþjóðum sínum tóku sér það bessavald að gera að leiksoppi lífið á Jörðinni. Ekki aðeins líf milljóna manna heldur allt lífkerfi hennar.

Myndin hefur aðra skírskotun í dag en á samt að minna okkur á ábyrgð mannsins í lífkerfi Jarðar. Það er staðreynd að hlýnun Jarðarinnar og afleiðingar hennar eru að stórum hluta á ábyrgð mannskepnunnar. Mengun og önnur inngrip í vistkerfi Jarðar eru líka öll á ábyrgð mannsins. Það sem myndin "The day the earth stood still" bendir á er að maðurinn er ekki eini eigandi reikistjörnunnar Jarðar sem hann getur komið fram við að eigin vild. Á jörðunni eru milljónir tegunda dýra og plantna sem eiga jafnmikið tilkall til Jarðarinnar og maðurinn.

Það er kominn tími til að maðurinn geri sátt við Jörðina og íbúa hennar og hætti að vera helsta ógnunin við tilveru þeirra. Náttúruvernd, notkun mengunarlausra orkugjafa og efna og nýting náttúruauðlinda á sjálfbæran hátt á að vera sjálfsögð í nútímasamfélagi og Ísland getur ef vilji er fyrir hendi tekið forystuna í þeim efnum.

Annars getur niðurstaðan orðið sú sem sýnd er í myndinni og sýnir enn og aftur að sá sem kemur í Paradís og lætur eins og hann eigi staðinn, geri þarfir sínar þar sem honum sýnist og rífur og tætir á kannski ekki annað skilið en að fara á hinn staðinn.

Mæli með myndinni. Þörf áminning. Og meira að segja Keanu Reeves stendur sig vel.   


Samningar í Tíbet en áróður á Íslandi

Sjá síðustu færslu hjá mér.
mbl.is Boða viðræður um Tíbet
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Take-Away áróður Kínverja á Íslandi

Það hljómar ótrúlega en þegar ég fór í gær að kaupa kínverskan á Duang Huang í Hafnarfirði þá færði brosmild afgreiðslustúlkan mér dvd disk um leið og hún færði mér matinn og sagði "Þú mátt eiga frá sendiráðinu". Eins og sannur íslendingur tekur maður alltaf fegins hendi ókeypis dóti þannig að ég þakkaði fyrir og fór. Ég kíkti svo á diskinn þegar ég kom út í bíl og sá að hann hét "The Dalai Lama" og grunaði eiginlega strax að þetta væri nú ekki komið frá Dalai Lama sjálfum.

Enda kom í ljós þegar ég þegar ég kíkti á diskinn heima að þarna var á ferðinni áróðursmynd sem réttlætti hernám kínverja í Tíbet. Þarna voru munkum og embættismönnum Tíbets fyrr á tíð lýst sem samviskulausum drápurum sem fláðu fólk lifandi og lögðu landsmenn í ánauð. Þeir voru síðan frelsaðir af hinum réttsýnu og góðu kommúnistum frá Kína. Síðan var Dalai Lama lýst sem strengjabrúðu í höndum breskra og bandarískra heimsvaldasinna.

Það er ljóst nú í aðdraganda Ólympíuleikanna í Beijing að kínversk stjórnvöld hafa sett í gang áróðursmaskínu sem á að draga hulu yfir þau mannréttindabrot sem viðgangast í Kína og í Tíbet. En það er þó von að úr rætist því heyrst hefur að bæði menntamálaráðherrann og viðskiptaráðherrann séu næstum því búin að snúa Kínverjum frá villu síns vegar. Og frú utanríkisráðherra er bara búinn að því hef ég heyrt.

Svo passiði ykkur næst þegar þið farið að ná í skyndibitann. Kannski fær maður næst skilaboð frá Bush um hið fagra Írak á Mac Donalds.

 


Ég mæli með þessu !!!

 

Enda er ég leikstjórinn og langaði að prófa að setja vídeó á bloggið.

Sýningar verða:

4. MAÍ SEM ER SUNNUDAGUR KL 20

9. MAÍ SEM ER FÖSTUDAGUR KL 20

10. MAÍ SEM ER LAUGARDAGUR KL 20

11. MAÍ SEM ER SUNNUDAGUR KL 20

OG LOOOOOKASÝNING 17. MAÍ SEM ER LAUGARDAGUR KLUKKAN 2O

  

Miðapantanir á leikfelagid@simnet.is og í síma 842-2850.

 


En afhverju ekki Orkuveituna?

Bíddu ef það þarf að einkavæða Landsvirkjun svo að þeir séu ekki að hætta sínu fé í útrás afhverju var þá ekki hægt að einkavæða Orkuveitu Reykjavíkur frekar en að stofna REI. Ég veit svei mér ekki hverjar hugmyndir sjálfstæðismanna í borgar og ríkistjórn eru varðandi aðkomu opinberra aðila að áhættufjárfestingum erlendis. Þeir virðast allavega hlaupa í hringi eftir því hvernig pólitískir vindar blása.

Og hvað er svona ólíkt með REI og LAPi. Voru ekki báðar stofnaðar sem hlutafélög með 100% eignarhlut móðurfélagins með þeim tilgangi að fjárfesta í orkuverkefnum erlendis. Og getur ekki verið að LAP eigi einhverja hönk upp í bakið á Landsvirkjun með einkaréttarsamningi. (varstu búinn að tékka á því) Og hvað gæti hindrað LAP í fara í samrunaferli t.a.m. við REI eða Geysi seinna þegar það hentar?

Og Gísli Marteinn. Ertu kominn með kaupanda að Landsvirkjun? Hefur kannski RIO TINTO verið í sambandi?

 


mbl.is Vill einkavæða Landsvirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afhverju vilja Sjálfstæðismenn frekar LAP en REI?

Er það í samræmi við stefnu sjálfstæðismanna að ríkisfyrirtæki standi í áhættu og samkeppnisfjárfestingum erlendis? Er ekki aðalmunurinn á REI og LAPi að í REI ætluðu einkaðilar að taka á sig mestu áhættuna á meðan í LAPI eiga íslenskir orkunotendur að taka einir áhættuna. Megum við næst eiga von á að RÚV fjárfesti í amrískum sápuóperum eða að FRÍK (Fasteignir ríkisins) hasli sér völl í Danmörku?  
mbl.is Ekkert athugavert við félag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sorgarstund fyrir land og þjóð

Það var reglulega súrealískt að sjá karlahjörðina brosa og stynja yfir þessu afreki sem að drekkti ósnortnasta víðerni í Evrópu. Afkomendur okkar eiga eftir að líta á þessa framkvæmd með sorg í augum og hrista höfuðið yfir skammsýni og fáfræði forfeðra sinna.

Kárahnjúkavirkjun getur aðeins orðið umhverfisverndarfólki stöðug áminning þess að ekki má láta deigann síga og láta þessa hörmung endurtaka sig.   


mbl.is Kárahnjúkavirkjun gangsett
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúlega skemmtilegt og frumlegt sjónvarpsefni.

Rakst óvart á þennan ótrúlega frumlega þátt þar sem verið er að gera grín að áhorfendum. Þarna var kynnir sem sagði brandara á rússnesku (þeir voru allavega óskiljanlegir) og svo var þarna kona frá Sinfóníuhljómsveit einhvers örlands (enda spilaði hún á öll hljóðfærin) sem var alltaf að spila eitthvert lag úr Nokia símanum mínum. Svo voru þarna verðlaunafhendingar þar sem fólkið sem afhenti verðlaunin var dauðadrukkið og verðlaunahafarnir ófrískir (einn var að vísu óléttur).

Það sem vakti mér alveg einstaka kátínu var kjör ofmetnaðasta manns landsins sem sjónvarpsmanns ársins. Áhorfendurnir tveir sem völdu hann eru líklegast bæði heyrnarlausir og blindir. Svo var þátturinn hans valin menningarþáttur ársins og verður það líklegast til að áhorfendur flýja allt sem heitir íslensk menning á náðir gæða menningarefnis frá Amríku.

Ég var líka furðulostinn yfir umhverfisáróðrinum sem helltist yfir alla í þættinum og kristallaðist í því að Landsvirkjun skyldi ekki fá leikmyndarverðlaunin fyrir köldu slóðina  heldur einhver maður sem á hund. Og að lokum var alveg frábært að sjá nú menntamálaráðherra kýla Baltasar kaldan (enda er hann umhverfishundur) og eins hefði nú Óli forseti mátt taka Friðrik Þór á kné sitt fyrir að móðga alla dani.

Það má þakka sjónvarpinu og kannski Stöð 2 (er ekki áskrifandi) fyrir þennan kostulega þátt. Það er um að gera að hafa hann fjóra tíma næst og leyfa kynninum stórmerka að tala bara fullt af tungum enda hefur hann einstaka framsögn.  


mbl.is Kvikmyndin Foreldrar fékk flest Edduverðlaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband