Um listir og boltalistir

Ég er að velta því fyrir mér afhverju við sem höfum áhuga á menningu erum alltaf sett skör lægra en boltaáhugamenn þegar kemur að beinum útsendingum í Sjónvarpinu. Það þykir alveg sjálfsagt að vera með beinar útsendingar frá öllum mögulegum íþróttamótum út um allan heim. Nú um daginn horfðum við í sömu vikunni á tvær beinar boltaútsendingar, aðra frá Svíþjóð og hina frá Serbíu. Og í báðum fóru mikinn ábúðarmiklir fréttamenn sem lýstu öllu þessu í smáatriðum þótt að við heima sæjum þetta jafnvel og þeir.

Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er að á tveggja ára fresti er öllu tjaldað til á Íslandi þegar heimsmeistaramótið þetta eða heimsmeistaramótið hitt í boltaleik fer fram og sjónvarp allra landsmanna eyðir öllu púðrinu það árið í sýna beinar útsendingar 24 tíma á dag. En á tveggja ára fresti þegar íslenskur myndlistarmaður tekur þátt í Olympíuleikum alþjóðlegrar myndlistar í Feneyjum þá hefur Sjónvarpið eða aðrir fjölmiðlar engan áhuga. Það er minnst á þetta í lok fréttatíma eins og þetta sé útskriftarsýning grunnskólanema í Súðavík. 

Er virkilega engin á íslenskum fjölmiðlum sem gerir sér grein fyrir mikilvægi tvíæringsins í Feneyjum eða öðrum stórum myndlistarviðburðum þar sem íslenskir listamenn koma fram? Ég held ekki. Það er því miður þannig með íslenska fjölmiðla að þeir eru meira uppteknir af íslenskum boltamönnum sem kunna ekki fótbolta eða sitja á varamannabekk alla leiki eða amerískum stelpukjánum sem hafa það eitt  fram að færa að leka klámi af sér á netið.

Íslenskir listamenn, eins og dæmin sanna, hljóta sína upphefð að utan og þá eins og venjulega flaðra íslensku fjölmiðlarnir upp þá. Svona er íslensk fjölmiðlun í dag. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ása Hildur Guðjónsdóttir

heyr heyr eins og talað út úr mínum munni

Ása Hildur Guðjónsdóttir, 12.6.2007 kl. 22:23

2 Smámynd: Vilborg Valgarðsdóttir

Og mínum líka!

Vilborg Valgarðsdóttir, 12.6.2007 kl. 22:52

3 identicon

Sæll,

Ég er á báðum áttum hvort ég sé sammála þér!

Þú kallar Ríkisjónvarpið; "Sjónvarp allra landsmanna".  Ég er ósammála þér í varðandi það að "skylduáskriftarsjónvarp ríkissins" sé kallað sjónvarp allra landsmanna, enda á ríkið þessa sjónvarpsstöð en ekki allir landsmenn (Ég á t.d. ekkert hlutabréf í þessari einka-stofnun).  Ef greiðsluformið gerir ríkissjónvarpið að eign allra, þá er það staðreynd að sumir borga kostnaðinn en aðrir ekki, þ.e. ekki allir landsmenn.

Varðandi íþróttir, þá er ég sammála þér!  Ríkissjónvarpið ætti einfaldlega að hætta að sýna frá íþróttaviðburðum.  Þeir sem vilja sjá íþróttir eiga að greiða sérstaklega fyrir það.  Eins og gert er hjá sjónvarpsstöðinni Sýn.  Enda gerir sú stöð það mun betur en ríkið.  Fréttir um íþróttir eiga auðvitað alltaf sinn skerf í fréttum, m.v. áhuga þeirra sem horfa á fréttir. 

Varðandi listir, þá ætti það sama að gilda um þær.  Þeir sem hafa áhuga á listum eiga að greiða fyrir slíkar útsendingar.  Allir sitja þá við sama borð og greiða fyrir sínar þarfir.  Listunnendur láta ekki íþróttaunnendur greiða fyrir sýnar þarfir og íþróttaunnendur láta ekki listunnendur greiða fyrir sínar (Þessir tveir, sem er bæði listunnandi og íþróttaunnandi þurfa þá að vísu að borga tvær áskriftir!). 

Allir sáttir. Einu ríkisbákninu færra.

Jósep Húnfjörð (IP-tala skráð) 19.6.2007 kl. 00:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband