Áskorun til Geirs og Ingibjargar Sólrúnar

Þetta er úr stjórnmálaályktun Íslandshreyfingarinnar sem var send til fjölmiðla í fyrradag.  

 

HVAÐ ÆTLIÐ ÞIÐ AÐ GERA
FYRIR ÞESSA ÞJÓÐ?

Áskorun til þeirra sem munu stjórna landinu næstu fjögur ár


Einkavæðing orkufyrirtækja og frekari orkuvæðing

Verða Íslendingar leiguliðar í eigin orkuparadís?

Íslandshreyfingin minnir á að ábyrgð þeirra sem stjórna landinu næsta kjörtímabil er mikil. Í stefnuyfirlýsingu Sjálfstæðisflokksins segir: „Sjálfstæðismenn vilja skoða kosti þess að færa eignarhald ríkisins á orkufyrirtækjum til einkaaðila." Með í kaupunum fylgir nýtingarréttur á íslenskum orkulindum sem hafa til þessa verið sameign þjóðarinnar. Nýlegar hrókeringar í stjórn Landsvirkjunar virðast einkum þjóna þeim tilgangi að greiða fyrir einkavinavæðingu Sjálfstæðismanna og Framsóknar á fyrirtækinu.

Þessi misserin tuttugfaldast hlutir í orkufyrirtækjum að verðgildi milli ára þannig að einkavæðing er óskynsamleg á þessum tímapunkti.

 

Einn stór viðskiptavinur hefur mikið vald

Líkur eru taldar á fjandsamlegri yfirtöku Alcoa á Alcan á næstunni. Verði ráðist í byggingu tveggja álvera, eins og stjórnarflokkar síðasta kjörtímabils hafa stefnt að, gæti svo farið að eitt erlent fyrirtæki ræki þrjú til fimm álver á landinu og yrði kaupandi 80-90% þeirrar orku sem hér verður framleidd - og sú viðbótarorka sem þarf til reksturs þeirra kostar fórnir einstæðra náttúruperlna á háhitasvæðum.

Hver verður samningsstaða Íslendinga gagnvart einum svo stórum viðskiptavini? Og hvað er því til fyrirstöðu að slíkt alþjóðarisafyrirtæki yfirtæki hin einkavæddu orkufyrirtæki og seldi sjálfu sér orkuna á því verði sem því sjálfu sýndist?

 

Íslandshreyfingin skorar á pólitíska forystumenn að gæta vel að sameign þjóðarinnar við myndun nýrrar ríkisstjórnar.


mbl.is Geir falið að mynda nýja ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband