26.3.2007 | 16:50
Þegar íbúakosning verður skrumskæling lýðræðis
Forystumenn Samfylkingarinnar í Hafnarfirði stæra sig mikið yfir íbúakosningunum um stækkun álversins í Straumsvík sem fara fram eftir nokkra daga og kalla það stórt skref í lýðræðisátt. Þeir sjálfir þegja þunnu hljóði um afstöðu sína þótt að afstaða forystumannanna Lúðvíks og Gunnars sé nokkuð ljós. Gunnar stærði sig mikið í Silfri Egils um helgina og talaði fjálglega um íbúalýðræði. En það verður nú að segjast ef þetta verður fordæmi fyrir íbúalýðræði á Íslandi þá er bleik brugðið.
ALCAN er erlent stórfyrirtækli sem veltir tæplega eitt þúsund og fimm hundruð milljörðum á ári. Þetta fyrirtæki hefur notað ómælda fjármuni í að auglýsa grimmt í fjölmiðlum með heilsíðuauglýsingum og óperusöng, verið með risatónleika, gefið bæjarbúum geisladiska og dagatöl og hrætt starfsmenn í að njósna um íbúa Hafnarfjarðar og setja í gagnagrunn og svert mannorð þess fólks sem stendur að Sól í Straumi. Fyrirtækið hefur þar að auki leikið aðalhlutverk í kynningarfundum Hafnarfjarðarbæjar þar sem íbúar áttu að fá óhlutdrægar upplýsingar. Er þetta lýðræði?
Gegn þessu hefur staðið lítill hópur bæjarbúa sem kalla sig Sól í Straumi. Þau hafa reynt að andæfa stækkun álversins með fundum og útgáfu bæklinga. Mikið af orku þeirra hefur farið í að leiðrétta þær rangfærslur sem ALCAN og aðrir stækkunarsinnar hafa haft uppi. Þessi hópur fékk með eftirgangsmunum 450,000 krónur í styrk frá bæjarfélaginu og því var meira að segja mótmælt af sjálfstæðismönnum. Er þetta lýðræði?
Nei, auðvitað er ekki lýðræðislegt að hagsmunaðili eins og ALCAN fái að valsa um eins og hann eigi Hafnarfjörð og eyði peningum út og suður til að ná takmarki sínu. Ef það er lýðræði þá erum við kominn aftur á slóðir Stalíns og annarra einræðisherra. Það eina sem hægt er að segja um þessa íbúakosningu í Hafnarfirði er að hún er skrumskæling þess sem ætti að vera.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.