9.3.2007 | 15:00
Hallar nokkuð á?
Það vakti athygli mína þegar ég fletti blöðunum í morgun að ALCAN er komið á fullt í kosningabaráttunni. Heilsíðuauglýsingar með brosandi fólki og skínandi hreinum byggingum blöstu við allstaðar og greinar eftir starfsmenn álversins á næstum annarri hverri síðu. Litla auglýsingin frá Sól í Straumi mátti sín lítils í bæjarblaðinu.
Lúðvík bæjarstjóri í Hafnarfirði virtist furða sig á fundi í gærkveldi á því að samtök almennings væru að biðja um peninga til að vinna á móti auglýsingamaskínu ALCAN og sagði að upplýsingar frá bænum væru svo greinargóðar að almenningur gæti myndað sína skoðun út frá þeim. Já einmitt, þær eru svo greinargóðar að þegar maður hefur síað út upplýsingarnar sem skipta máli þá verður kominn 31. mars , árið 2008.
Hann sagði líka að bæjaryfirvöld litu þannig á að stuðningur við skoðanaskipti væru í sama farvegi og við sveitastjórnarkosningar þar sem flokkarnir fengju allir sama stuðning án tillits til stærðar. Einmitt það já. Þannig að ALCAN er þá náttúrulega búinn að fá 500,000 kallinn sinn eins og Sól í Straumi og geta því borgað auglýsinguna í Fréttablaðinu í morgun.
Mig langar að spyrja Lúðvík. Hefði þér fundist það eðlilegt í síðustu sveitarstjórnarkosningum að Samfylkingin í Hafnarfirði hefði fengið ótakmarkað fjármagn frá skrifstofunni í Reykjavík, fyllt blöðin af auglýsingum, boðið bæjarbúum hitt og þetta frítt, verið með fjölda starfsmanna á launum við að skrifa áróðursgreinar og hringja í alla bæjarbúa og opnað glæsilegustu kosningaskrifstofu landsins? Miðað við afstöðu þína í gær ertu í raun að kalla á það að lýðræðisleg umræða á Íslandi geti verið kaffærð af fyrirtæki á borð við ALCAN sem hagnaðist um 1200 milljarða á síðasta ári.
Athugasemdir
Sæll, Lárus !
Lúðvík Geirsson er af þeim meiði ættar okkar, frá Gamla Hrauni í Hraunshverfi; í Stokkseyrarhreppi, að hafa ei þann skörungshátt og einurð til að bera, sem þarf, að taka skýra afstöðu; þá mikið liggur við, og örlög heilla byggða og bújarða eru í húfi. Má vera, að hann sé svo skemmdur orðinn, af alþjóða glýju þeirri, hverri Samfylkingin, og hennar stáss er hvað mest snokið fyrir, þessi misserin.
Það er ósvinna; og ósvífni mikil, af hálfu þeirra Hafnfirðinga, hverjir reknir eru áfram, með áfergju hins kapítalízka frumskógalögmáls, með fulltingi ÍSAL (Alcan) og nokkurs hluta stjórnenda Landsvirkjunar, að ganga, slag í slag, á orkuauðlindir okkar; Vestur- Skaftfellinga - Rangæinga og Árnesinga, þætti eflaust þeim Hafnfirðingum, hverjir að hygðu; stungin tólgin, hversu fjarlægur núverandi bæjarstjóri þeirra væri orðinn langtíma hagsmunum síns gamla heimahéraðs, en svona er þetta nú samt; Lárus Vilhjálmsson !
Kynni að vera, Lárus; að börn okkar Sunnlendinga, og aðrir afkomendur vildu hafa hönd í bagga; með ráðstöfun sinna heimahaga, hér eystra, þá líða tekur á 21. öldina !
Hagsmunir ábúenda jarðanna, á Þjórsárbökkum; ættu að vera Hafnfirðingum, sem og landsmönnum öllum skýrir, ekki er núverandi landbúnaðar ráðherra svo atkvæðamikill, hér heima í héraði, að taka af djörfung og þeim stórhug, til viðspyrnu þessarra fyrirætlana, sem allir hugsandi, og velmeinandi Íslendingar hefðu líklega ráð fyrir gert.
Nei, Lárus; roluháttur og síngirni margra samlanda okkar, þegar kemur að ögurstundum í þjóðlífinu ríður ekki við einteyming. Gróðahyggja og þjóðernisafneitun eru einhverjir verstu lestir okkar samtíma.
Læt lokið, um hríð.
Með beztu kveðjum, í Gullbringusýslu hina efri /
Óskar Helgi Helgason, frá Gamla Hrauni og Hvítárvöllum
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 9.3.2007 kl. 15:41
Lárus. Telur þú að Alcan greiði fólki fyrir að skrifa greinar í blöð. Ég reikna ekki með að það þurfi að greiða fyrir að koma að grein í Fjarðarpóstinn fremur en önnur blöð þannig að það sem er að gerast er að þeir Hafnfirðingar sem styðja stækkun eru að láta í sér heyra. Það kemur kanski sumum á óvart sem héldu að allir væru þeim sammála (lesist Sól í Straumi) en svona er það nú samt. Starfsmenn Alcan og þeir Hafnfirðingar sem vilja áfram blómlegann bæ hafa nú tekið upp baráttuna gegn fjölmiðlafárinu því ekki voru neinir aðrir til að gera það.
Guðmundur Ragnar Björnsson, 10.3.2007 kl. 22:26
Nei Guðmundur en aftur á móti greiðir ALCAN launin þeirra. Og það sem rekur þessa starfsmenn síðan til að skrifa greinar eins hægt var að sjá í Fjarðarpóstinum er hræðsluáróður um lokun álversins sem Hagur Hafnarfjarðar hefur t.a.m. haldið hátt á lofti. Og viltu ekki nefna mér dæmi um fjölmiðlafárið sem hefur dregið taum Sólar í Straumi.
Lárus Vilhjálmsson, 11.3.2007 kl. 09:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.