Grænt hagkerfi er framtíðin

Las um daginn mjög gott viðtal við Sigurð Gísla Pálmason athafnamann og framleiðanda Draumalandsins í Fréttablaðinu. Þar kemur hann fram með athyglisverðar hugmyndir um orsök efnhagshrunsins og kallar á nýja hugmyndafræði í uppbyggingu efnahagslífsins sem byggir á traustum siðferðislegum grunni.

Það er mikilvægt að eftir gjaldþrot gamla hagkerfisins í haust verði byggt upp nýtt hagkerfi á næstu misserum sem tryggi öllum atvinnu og verði ávísun á langtíma hagvöxt sem byggir ekki á sóun og ævintýramennsku. Setja þarf fram atvinnustefnu til framtíðar sem byggir á sjálfbærri nýtingu auðlinda, mannafla og fjármagns.

Innleiðing græns hagkerfis er besta leiðin til þess. Innan græns hagkerfis þrífst best menntun og frumkvöðlakraftur nýrrar kynslóðar. Leiðarljós græns hagkerfis er sjálfbær þróun sem þýðir að hagkerfið er byggt upp á þeirri meginreglu að nýting auðlinda, mannafla og fjármagns skili þeim í sama ástandi eða betra til næstu kynslóðar og svo koll af kolli. Þetta þýðir t.a.m. að nýting auðlinda verður að vera í sátt við náttúru landsins og komandi kynslóðir. Eins verður uppbygging atvinnu og mannlífs að tryggja öllum mannsæmandi afkomu og fjölbreyttum valkostum til menntunar og starfa. Nýting fjármagns til fjárfestinga má heldur ekki leiða til skulda sem næstu kynslóðir þurfa að borga.

Græna hagkerfið er engin klisja eða draumsýn fárra sérvitringa. Það er eina raunhæfa lausnin til að endureisa laskað efnahagslíf heimsins að mati margra helstu iðnríkja heims. Barack Obama, forseti Bandaríkjanna lagði fram í febrúar græna efnahagsáætlun sem á að skapa 5 milljón ný störf á næstu árum og ríkistjórnir landanna í ESB , Kina og Japan undirbúa svipaðar áætlanir. Það vekur furðu að einu stjórnmálaflokkarnir á Íslandi sem ætla að fylgja alþjóðasamfélaginu í þessa átt eru Samfylkingin og Vinstri Grænir meðan að Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Frjálslyndir horfa enn til sovéskrar stóriðjustefnu sem sinnar endurreisnar í efnahagslífinu.

Með innleiðingu græns hagkerfis gæti Ísland verið í fararbroddi þeirra þjóða sem ætla að endurreisa hagkerfi sín á þeim grunni og jafnvel orðið skólabókardæmi og fyrirmynd um grænt hagkerfi. Við endurreisn íslenska efnhagslífsins er nauðsynlegt að horfa fram á veginn og grípa ekki til skyndilausna sem koma í bakið á okkur síðar eins og að nýta sjálfbærar orkulindir okkar í mengandi stóriðju. Endurreisn efnahags og atvinnulífs á Íslandi til framtíðar felst í nýju hagkerfi sem er sjálfbært og skapar ný störf þar sem menntun og sköpunarkraftur þjóðarinnar nýtur sín. Græna hagkerfið er framtíðin.     


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband