Íslensk dagskrárgerð í RÚV á villigötum

Það er nú ekki hægt að segja að gamall leikfélagi minn Þórhallur hafi byrjað vel á sínum fyrstu dögum sem dagskrárstjóri Sjónvarpsins. Það sem hann ætlar að bjóða okkur upp á í vetur er vægast sagt klént. Skemmtiþáttur með Eurovision ívafi á laugardögum, bókmenntaþáttur í anda Silfurs Egils, og svokallaður lista/kvikmyndaþáttur í anda amrískra ET þátta kannski, endurunnin spurningaþáttur í anda Ómars, Eva María að tala við skrítna fólkið  og að lokum Spaugstofan (what can I say). 

Ég sá þrjá þessara þátta í vikunni og varð ekki mjög upprifinn. Kiljan hjá Silfur Agli var eins og við var að búast  Silfur Egils með aðeins notalegri leikmynd og rabbi við bókmenntafólk. Þarna var ekkert rifrildi til að lífga upp á þannig að hjá mér fær hann tvær stjörnur. Þáttur sem á ekkert erindi í sjónvarp en myndi njóta sín ágætlega í útvarpinu eða netinu. 

Útsvarið (hvaða snillingur fann upp á þessu arfaheimskulega nafni) var allt í lagi spurningaþáttur en alveg ljósár frá hinum frábæra þætti Ómars Ragnarssonar sem kætti landsmenn hérna um árið. Það er augljóst að ekki á kosta neinu til að þessu sinni, þættirnir teknir upp í Efstaleiti með ljótustu leikmynd sem sést hefur síðan í Skonrokki, fræga fólkið í liðunum látið sjá um skemmtiatriðin og liðið úr Kastljósinu notað enn og aftur. Ljósu punktarnir voru Þóra sem er skemmtileg sjónvarpskona og algerlega vannýtt í Kastljósinu og Fjölnir í Actionary. Tvær stjörnur þar.

Spaugstofan byrjaði svo enn og aftur á laugardagskvöldið og núna án Randvers sem ég saknaði ekkert. Þórhallur, afhverju í ósköpunum rakstu ekki textahöfundanna að þessu þætti sem var álíka fyndin og eldhúsdagsumræðurnar á þingi frekar en Randver? Ég spyr mig enn og aftur hvenær þessir ágætu menn í Spaugstofunni sem voru fyndnustu menn landsins á fyrstu fimm, sex árum Spaugstofunnar ætla að finna sinn vitjunartíma og hætta þessari vitleysu. Ég get ekki einu sinni fundið eitt atriði í þættinum sem mér fannst fyndið en ég gef samt eina stjörnu fyrir sorglega atriðið með prumpstömpunum sem er í lýsandi fyrir húmor Spaugstofunar í dag.

Það er skrítið eftir alla yfirlýsingagleðina um stóraukna íslenska dagskrárgerð með hlutafélagavæðingu RÚV þá er það Stöð 2 sem ætlar að vera í fylkingarbrjósti í íslenskri dagskrárgerð með þremur leiknum þáttum í vetur. Sjónvarpið er því miður ekki sá útvörður íslenskrar menningar sem það ætti að vera eins t.a.m. BBC í Bretlandi heldur frekar eftiröpun amrískra afþreyingarmiðla á borð við NBC og ABC. En kannski það sé keppikefli nýs dagskrárstjóra sjónvarpsins. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Svona Svona Lalli minn. Verum svolítið jákvæð :)

Ylfa Mist Helgadóttir, 19.9.2007 kl. 17:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband