8.7.2006 | 17:45
Er hægra grænt framboð í andarslitrum?
Það voru vonbrigði að sjá að Reynir Harðarson, einn af öflugustu Framtíðarlandsforkólfunum og einn af þeim sem vildi sjá Framtíðarlandið bjóða fram, ganga til liðs við Samfylkinguna. Hann virðist eins og margir taka viðsnúning Samfylkingarinnar í umhverfismálum trúanlegan og að hið Fagra Ísland þeirra verði í fararbroddi í kosningunum. Það getur verið að græn slikja sé nú komin yfir Samfylkinguna í Reykjavík en þar ætlar Reynir að setjast á lista en í öðrum kjördæmum sitja enn í brúnni harðir stóriðjukallar eins og Einar á Austurlandi og Möllerinn fyrir norðan. Hér í kraganum var einum af fáum þingmönnum Samfylkingarinnar sem barðist gegn Kárahnjúkum, Þórunni Sveinbjarnardóttur bolað úr fyrsta sætinu af Gunnari Svavarssyni ú Hafnarfirði.
Það er ljóst að Samfylkingin í Hafnarfirði, sem er eitt sterkasta vígi hennar á landinu, hefur tekið afstöðu með stækkun álversins í Straumsvík og stað þess að segja það hreint út þá hlífir hún sér á bak við atkvæðagreiðslu 31 mars. Það er þó augljóst að oddvitar hennar í Firðinum hafa tekið afstöðu með því að taka undir sjónarmið ALCAN í mengunarmálum, með því að saka Sól í Straumi um lygar og rangfærslur og með því að fordæma ekki grímulausan áróður ALCAN manna með tónleikum og gjöfum til bæjarbúa. Eins er reynt að þvæla málið fyrir bæjarbúum með því að láta þá greiða atkvæði um deiliskipulag þann 31. mars í stað þess að hafa spurninguna klára um hvort að fólk vilji stækkun eða ekki.
Sjálfstæðisflokkurinn í Hafnarfirði hefur einnig brugðist algerlega í þessu efni og eltir stefnu stóra bróður í Valhöll í stað þess að marka sér eigin stefnu sem miðast við framtíð bæjarfélagsins. Maður hefði haldið að hægri menn sæju þann fáránleika að binda stærðar landsvæði á besta stað í bænum undir álverkssmiðju í stað þess að nýta sér þá möguleika sem bjóðast Hafnarfirði vegna nálægðar við alþjóðaflugvöll og einstæða náttúru Reykjaness. Það er kannski ekki skrítið að fylgi flokksins sé í sögulegu lágmarki í bænum þegar hann er bara að druslast áfram með Samfylkingunni.
Þótt að Reynir hafi fundið sér farveg með Samfylkingunni, eins skrítið og það hljómar, þá vona ég að Ómar, Margrét Sverris og fleirri finni flöt á að stofna til framboðs sem setur umhverfimál í öndvegi og geti í áherslum sínum höfðað til fólks sem hingað til hefur kosið til hægri.
Lalli Vill
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning