14.5.2007 | 10:13
Taktík Össurar, Hjörleifs og Kolbrúnar hélt lífi í stóriðjustjórninni
Það er ljóst að hræðsluáróður ákveðinna afla innan Samfylkingarinnar og Vinstri grænna með þá Össur Skarphéðinsson, Hjörleif Guttormsson og Kolbrúnu Halldórsdóttur í broddi fylkingar réði úrslitum um það að Íslandshreyfingin náði ekki yfir 5% markið í kosningunum á laugardaginn. Þarna tóku þessir aðilar höndum saman ásamt Morgunblaðinu og stóriðjuflokkunum um að útiloka Íslandshreyfinguna frá áhrifum í landsmálunum.
Röksemd þeirra Össurar, Hjörleifs og Kolbrúnar að atkvæði greidd Íslandshreyfingunni komi frá vinstri er algerlega innistæðulaus. Atkvæði kjósenda eru í fyrsta lagi ekki geymd í hólfum merktum þeim flokkum sem fyrir eru. Það þurfa allir flokkar að vinna fyrir sínum atkvæðum. Eins er ljóst að nýjir kjósendur í þetta skiptið voru u.þ.b. 17,000 og ekki er með nokkru móti hægt að vita hvar þeir kjósa. Eins kom í ljós í þeirri skoðanakönnun þar sem spurt var hvað kjósendur höfðu kosið áður að meira en helmingur þeirra sem ætlaði að kjósa Íslandshreyfinguna kaus Sjálfstæðisflokkinn áður.
Það er því ljóst að hræðsluáróður þeirra Össurar, Hjörleifs og Kolbrúnar um að atkvæði greidd Íslandshreyfingunni væru dauð atkvæði, sem gerði það að verkum að fjöldi kjósenda setti sín atkvæði annarsstaðar, er aðalástæða þess að stjórnin lafir enn. Atkvæðin sem hefðu sannarlega nýst í að fella stóriðjustjórnina ef Íslandshreyfingin hefði náð 5% markinu eru núna dauð hjá hinum flokkunum.
Athugasemdir
Þakka þér fyrir athugasemdina sem þú gerðir á blogginu mínu áðan. Ég fylgdist með málflutningi þínum í kosningabaráttunni og fannst þú hafa mikið fram að færa og komast vel frá þínum málflutningi. Til hamingju með það.
Ég talaði aldrei niður til eða óvirðulega um Íslandshreyfinguna í kosningabaráttunni utan e.t.v. þegar ég gagnrýndi einu sinni í sjónvarpsumræðum ummæli Ómars Ragnarssonar þess ágæta manns. Ég sagði jafnan þegar talað var um að þið væruð að taka atkvæði að þið ættuð eins og hver annar lýðræðislegan rétt á því að bjóða fram. Það var Margrét Sverrisdóttir sem hins vegar hnýtti ítrekað í mig í kosningabaráttunni kallaði mig m.a. rasista auk ýmis annars. Hún sendi Magnúsi Þór líka tóninn ítrekað. Þá kom hún óheiðarlega fram við sína fyrrum flokksmenn sbr. að taka Hótel Borg fyrir kosningavöku hjá ykkur en þann stað hafði hún pantað fyrir Frjálslynda flokkinn á sínum tíma þegar hún var framkvæmdastjóri. Þér finnst þetta e.t.v. í lagi? Ég held þó ekki.
Jón Magnússon, 14.5.2007 kl. 11:39
Mér finnst ekki rétt af þér Lárus að kalla skrif fólks sem óttaðist að atkvæði til Íslandshreyfingarinnar féllu dauð niðu, "hræðsluáróður". Þetta var raunveruleg staða og eftir því sem nær dróg að kosningum og fylgistölur xÍ fóru ekki að hreyfast upp fyrir 3% í mörgum skoðanakönnunum, þ.á.m. könnun Fbl sem innihélt 3600 manna úrtaka (6x600) og sýndi rétt rúm 2% fyrir xÍ. Þú ættir frekar að bolsótast út í 5% regluna og þá sem gerðu hana að lögum. Það eru auðvitað óréttlæti að það þurfi yfir 9250 (4.9%) atkvæði miðað við núverandi kjörsókn til að koma manni á þing. Það var markmið margra nr. 1 að koma þessari ríkisstjórn frá og því miður náði xÍ ekki að halda sér yfir 5% á fyrstu 3 vikum sínum, þannig að það voru fullkomlega eðlilegar áhyggjur manna eins og Hjörleifs Guttormssonar að framboð xÍ yrði til þess að stjórnin héldi velli. Sástu nokkurn Sjálfstæðismann letja framboðið? Það gerðu sér miklu fleiri en Hjörleifur grein fyrir þessu og því var það 5% reglan sjálf og niðurstöður kannana sem áttu þátt í því að xÍ gekk ekki betur.
Varðandi tölurnar sem komu fram í skoðanakönnun Gallups á mánudeginum fyrir kosningar. Það voru 4% af fyrra fylgi xD sem völdu xÍ (þ.e. 4% af 36% eða ca 1.44% af kjósendum 2003) og 3.6% af xVg (þ.e. 3.6% af 9% eða aðeins 0.3% af kjósendum 2003). Þannig er hægt að útskýra 1.74% af því rúmlega 2% fylgi sem xÍ fékk í þessari könnun. Fylgi frá fyrrum kjósendum xS og xB var nánast ekkert. Það má því álykta að tæpur helmingur kjósenda xÍ hafi verið nýir kjósendur.
Svanur Sigurbjörnsson, 15.5.2007 kl. 13:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.