25.4.2007 | 14:24
Herinn þeirra Valgerðar og Bjössa
Björn Bjarna hefur lengi dreymt um að koma upp íslenskum her, svo að íslensk ungmenni læri nú að freta úr byssuhólkum og elta ímyndaða óvini upp um öll fjöll. Ekki hefur þessi hugmynd Björns hlotið mikið brautargengi og menn hafa broasð út í annað þegar þetta kemur upp. Hann hefur að vísu komið með ýmsar útgáfur af svona herafla og nýjasta er svokallað varalið lögreglunnar sem á að vera til taks ef að Falun Gong kemur aftur til Íslands. Varalið lögreglu er kallað "paramilitary" á enskunni og hefur yfirleitt verið notað til að hafa hemil á stjórnarandstæðingum í ýmsum löndum.
Valgerður utanríkisráðherra er hrifnari af útlensku herliði. Hún hefur frá því að ameríski herinn tók sitt hafurtask og fór farið út um allar trissur til að finna einhverja soldáta til að passa upp á okkur. Og nú í vikunni tókst henni að fá Norðmenn og Dani til að senda okkur hermenn og þotur nokkrum sinnum á ári til að hlaupaum vígbúnir í hrauninu og fljúga kringum Vatnajökul. Og hún ætlar að borga ferðir og uppihald og kannski bensínið líka. Þannig að staðinn fyrir íslenskan her þá er Valgerður komin með dansk/norskan her.
Það sem stingur mann dálítið er hve Björn og Valgerður hafa litla trú á vilja bandamanna okkar í NATO og Bandaríkjamanna sem við höfum varnarsamning við til að verja okkur ef að einhver nágrannaþjóð okkar myndi ráðast á okkur (við erum held ég of langt frá N-Kóreu). Í meira en 50 ár þótti þessi vörn okkar í NATO og könunum nægjanleg og þá voru rússarnir raunveruleg ógn. En nú þegar stærsta ógnin er líklegast Noregur eða Danmörk (sem vilja meiri síld og burt með Baug) þá látum við þau sömu lönd sjá um varnirnar.
Þetta er sékennilegt svo ekki sé meira sagt og ósjálfrátt leitar hugurinn að Gissuri jarli og gamla sáttmála 1262.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.