Hættið að uppnefna mig!

 

Rökræðan í kringum umhverfismál á Íslandi er einkennileg. Eða ætti ég kannski að segja dæmigerð.

Ég, eins og líklegast margir, aðrir hef ekkert pælt mikið í umhverfismálum í gegnum tíðina. Ég er Hafnfirðingur og ólst upp við álbræðsluna í Straumsvík, fannst sem smákrakka rauðu og hvítu súrálsturnarnir flottir enda minntu þeir á bismark brjóstsykur, man að mamma bannaði manni að tína ber á holtinu útaf flúornum og þekkti stráka sem unnu þar á sumrin. Þegar ég vann í Sædýrasafninu man ég eftir bláa skýinu sem umlukti verksmiðjuna. En þetta truflaði mann ekkert þá, enda reykti ég þá eins og strompur og fannst sjálfsagt að  menga umhverfið hjá vinum og ættingjum.

En nú á  síðustu 10 árum hef ég orðið umhverfisvænni. Ég hætti að reykja, fór að fylgjast með umræðu um umhverfismál og fór að reyna mynda mér skoðun á hinum ýmsu aðgerðum sem hafa áhrif á umhverfi okkar. Ég var nú í fyrstu skeptískur á Kárahnjúkavirkjun vegna þess að mér fannst fáránlegt að grípa til sovéskra efnahagsaðgerða til að bjarga vonlausri byggðastefnu fyrir horn og fannst týpískt að  menn töluðu um mikla arðsemi en sýndu aldrei neina útreikninga. En þegar ég heimsótti Kárahnjúkasvæðið árið 2001, sem hafði verið lýst sem eyðimörk og sá hvaða náttúruperlum við vorum að fórna þá varð ég eiginlega gáttaður. Var ríkisstjórn hægrimanna virkilega að ganga í sömu sporin og alræðisstjórn Bréfsnefs í Sovétinu sáluga gerði í mið-Asíu og fremja óafturkræf náttúruspjöll til þess eins að auka við þungaiðnaðinn í landinu.

En það sem ég uppgötvaði að þegar ég opnaði munninn og fór að mótmæla þessum áformum var eiginlega skelfilegt. Sá hópur sem hafði hagsmuni af virkjuninni og álverinu í Reyðarfirði úthrópaði mig sem kaffihúsablaðrara, andstæðing landsbyggðarinnar og eiginlega hálfgerðan hryðjuverkamann. Ég var sakaður um vera vinstri grænn (þeir hafa víst einkaleyfi á umhverfismálum), útsendari Sea Shepgerd eða þaðan af verra, vera á móti uppbyggingu í landinu og á móti útlendingum (af því að margir þeirra vinna á Kárahnjúkum). Svo er vinsælasta röksemdin sú að ég sé nú bara tuðari og á móti öllu.

Svipað gerðist nú fyrir skömmu þegar ég lýsti mig andvígan stækkun álversins í Straumsvík. Stækkunarsinnar hafa sakað mig um vilja lokun álversins, um að vera á móti starfsmönnum og að vera á móti þróun og uppbyggingu Hafnarfjarðar. Eins hef ég verið sakaður um að efast um dómgreind samborgara minna og að ég vinni að því að rústa atvinnulíf í bænum mínum. Svo hefur maður enn og aftur verið sakaður um a hanga á kaffihúsum.

Það eina sem ég hef sagt um málið er að ég vilji ekki stærstu álverksmiðju í Evrópu inn á gafl hjá mér. Það er staðreynd að hún mengar meira en núverandi verksmiðja og það eitt er nóg fyrir mig. Ég hef reynt að forðast sleggjudóma eða alhæfingar um þá sem vilja stækkun því að sá hópur er með stækkun á mismunandi forsendum. Sumir vilja meiri hagnað og veltu á meðan að aðrir eru uggandi um atvinnuna sína. En engan þeirra vil ég kalla kaffistofublaðrara, framsóknarsjálfstæðismann (sem halda að þeir eigi einkaleyfi á stóriðjustefnunni), útsendara ALCAN, á móti uppbyggingu nútímaatvinnulífs, eða á móti útlendingum (af því að þeir koma til Íslands að mótmæla virkjunum).

Það er öllum fyrir bestu að umræðan um þessi mál hér á Íslandi fari úr skotgröfunum og fólk geti sagt sína skoðun á umhverfi sínu án þess að vera úthrópað. Það er staðreynd að mismunandi skoðanir á umhverfismálum er að finna hjá öllum flokkum og þvert á skoðanir í efnahags og utanríkismálum. Vinstri grænir hafa ekki einkarétt á umhverfismálunum og Sjálfstæðis/Framsóknarflokkurinn ekki á stóriðjumálunum. Stjórnmálamenn eiga að hafa skoðun á umhverfismálum eins og öðrum málum en ekki að fela sig á bak við þögn eins og Samfylkingin í Hafnarfirði. Þá vonandi hættir umræðan um umhverfismál að vera einkennileg og menn geta rökrætt opinskátt um hlutina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband