25.2.2007 | 12:19
List, hundaskítur og glötuð Spaugstofa
Ég fór á sýningu Pierre Huyghe í Listasafni Reykjavíkur á föstudaginn og varð fyrir töluverðum vonbrigðum. Huyghe er einn af áhugaverðustu listamönnum frakka um þessar mundir og maður bjóst við einhverju verulega flottu. Í staðinn var boðið upp á 3 vídeó sýningar og gat ekki séð betur en að tvær þeirra væru documentasjónir frá gjörningunum í Tate og París. Þriðja vídeóið var svo sem ágætlega interessant en þetta hefði held ég allt sómt sér betur í Tjarnarbíó. Mér hefði fundist metnarfyllra ef Hyughe hefði gert einn af þessum gjörningum eða sem væri enn betra að gera nýjan fyrir rýmið þarna í Hafnarhúsinu. Ég vona að það sé ekki nein þjóðremba en sýning Birtu Guðjóns sem er í D salnum þarna í Hafnarhúsinu er skemmtileg og sýnir að Birta er ekki bara góður sýningarstjóri (Gallerí Dvergur/Safn) heldur flottur listamaður.
Á laugardaginn eyddi ég síðan drjúgum hluta dagsins við að tína upp hundaskít í garðinum mínum. Þetta er ágætis hugleiðingarathöfn og leiddi hugann að hver væri munurinn á hundaskít og mengun úr ALCAN. Það getur verið að hvorutveggja sé tiltölulega meinlaust og skaði mann ekkert til langframa en það er þó frekar ógeðslegt að leggja það sér til munns. Munurinn er þó sá að að maður ræður hvort maður étur hundaskít en mengunin kemur inn um kjaftinn hvort sem manni líkar betur eða verr. Það bjargaði þó laugardeginum að með hjálp konunnar fann ég skó sem pössuðu og borðaði síðan fínt pasta á Fridays.´
Einu sinni var ég mikill aðdáandi Spaugstofunnar og fannst þeir óborganlegir í því að draga dár að ýmsu í þjóðfélaginu sem orkaði tvímælis. Ógleymanlegir eru nokkrir þættir þar sem þeir gerðu úttekt á t.a.m. trúmálum íslendinga og þjóðarsál. EN nú er nóg komið. Þeir Spaugstofumenn eru vægast sagt orðnir alveg hrikalega leiðinlegir, hugmyndaleysið algert og nú er reynt endalaust að fylla upp í tímann með ömurlegum kúk og piss bröndurum. Það er svo sem dæmigert fyrir dagskrárdeild sjónvarpsins að halda úti sama skemmtiþættinum í 20 ár enda er innlend dagskrárgerð sjónvarpsins með því versta sem gerist (og er þá norska sjónvarpið talið með). Eftir að hafa um skeið fylgst með dagskrárefni á BBC þá er himinn og haf þarna á milli í bæði gæðum og skemmanagildi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.