22.2.2007 | 11:15
Hvar var Lúlli bæjarstjóri?
Ég fór á fínan fund hjá umhverfissinnuðu Samfylkingarfólki í Hafnarfirði í gær um stækkunina í Straumsvík. Fundurinn var í Bæjarbíó sem vakti upp minningar um skemmtilega tíma með Leikfélaginu þar í 15 ár. Rak augun í Tryggva Harðar sem vakti aftur á móti upp miður skemmtilegar minningar um hvernig meirihluti Alþýðuflokksins árið 1998 bolaði félaginu úr húsinu með svikum og pólitískum loddarabrögðum. En nóg um það. Þetta var fínn fundur og bara nokkuð vel mætt.
Jón Baldvin var fyrsti ræðumaður og hélt þetta líka þessa frábæru ræðu sem reif í tætlur stóriðjustefnu stjórnvalda og hvatti ráðamenn Samfylkingarinnar í Hafnarfirði til að taka alvarlega markmiðið um hið Fagra Ísland. Vona að ræðan birtist í öllum fjölmiðlum landsins.
Svo talaði Tryggvi Harðarson sem lýsti sig fylgjandi stækkun en bara eftir 5 ár. Hans röksemdir snerust aðallega um gróðann sem myndi hljótast af stækkun og hann gerði lítið úr mengunaraukningu og nefndi að miklu meiri mengun væri við stóru gatnamótin í Reykjavík. Svona röksemdafærsla finnst mér út í hött. Get ekki séð að eitthvað geti verið í lagi ef það er verra einhversstaðar annarsstaðar. Svona eins og að pyntingar í Guantanamo séu í lagi vegna þess að Al Kaida noti verri aðferðir.
Þórunn Sveinbjörnsdóttir talaði síðan á sömu nótum og Jón Baldvin. Þórunn er einn af fáum þingmönnum Samfylkingarinnar sem var á móti Kárahnjúkavirkjun á sínum tíma. Hún hefur einnig unnið afar gott starf í kjördæminu og hefur yfirburða þekkingu í alþjóðamálum (sem ég þekki af eigin reynslu). Þessvegna kom á óvart að hún náði ekki fyrsta sæti í kraganum eins og hún stefndi að.
Ég held að þessi fundur hafi sýnt vel þá kreppu sem Samfylkingin er í varðandi umhverfismál og hefur endurspeglast í skoðanakönnunum. Það er ekki nóg að setja fram flotta stefnu í umhverfismálum (Fagra Ísland) og að formaður flokksins sé skorinorður í fjölmiðlum þegar sveitastjórnarmenn flokksins spila sóló á vellinum og draga þar með úr trúverðugleika flokksins. Á fundinum í gær steig á stokk Samfylkingarfólk sem hefur sterkar skoðanir bæði með og á móti stækkun í Straumsvík. Það er gott en á móti vekur furðu að á fundinn skyldu ekki koma forystusauðir Samfylkingarinnar í Hafnarfirði. Hvar voru Lúlli, Gunni, Ellý og fleirri?
Það er jákvætt að bjóða almenningi upp á atkvæðagreiðslur um mál sem skipta þá máli eins og stækkunina í Straumsvík. En að taka þá afstöðu eins og meirihluti bæjarstjórnar í Hafnarfirði gerir að vera hlutlaus í málinu út á við er fáránlegur. Eru stjórnmálamenn ekki kosnir vegna þeirra skoðana sem þeir bjóða kjósendum upp á? Það hefur líka sýnt sig að hlutleysið ristir grunnt því að bæjarstjórinn hefur bæði í orðum og athöfnum ýjað að stuðningi sínum við stækkun. Er ekki betra að henda burt hlutleysisgrímunni og segja sína skoðun. HVað segja hinir Samfylkingarmennirnir í bæjarstjórn? Elta þau bæjarstjórann eða er það leyndarmál hvaða skoðun þau hafa?
Athugasemdir
Velkominn á moggabloggið Lalli. Bestu kveðjur,
Hlynur Hallsson, 22.2.2007 kl. 23:35
Meistari Lárus...nú hefst fjörið...ég setti þig efst hjá mér í bloggvinum...og það er eins gott að þú standir undir því...sem ég efast ekki um. Langt síðan að við höfum heyrst, er á leið til borgar óttans næstu 10 daga c.a og þá er kaffispjall skylda.
Júlíus Garðar Júlíusson, 23.2.2007 kl. 10:19
Velkominn á bloggið Lalli minn. Ég var að skoða Slóðirnar þínar, prufaði 3 en engin þeirra virkar.
Vilborg Valgarðsdóttir, 23.2.2007 kl. 12:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.